Lilypie Third Birthday tickers

Thursday, September 29, 2011

Veltikarl :)

Stefán Sölvi velti sér frá bakinu yfir á magann í fyrsta sinn þriggja og hálfs mánaða, fokreiður að reyna að ná í brjóst :)  Hann hefur svo velt sér 2x síðan en ekki verið mikið að pæla neinum svona hreyfingum.  En í kvöld varð breyting þar á.  Allt í einu fattaði hann hreyfanleika sinn og var búinn að snúa sér í hálfhring skömmu eftir að ég lét hann á leikteppið.  Síðan velti hann sér frá bakinu yfir á magann 3x með stuttu millibili og sperrti upp fætur og höfuð eins og selur á steini þegar á mallann var komið :)  Reynt var að ná myndbandi af þessum tilraunum en hann fór ekki alveg yfir á magann þegar við vorum að taka upp, dæmigert.  Greinilegt er að nú er minn maður farinn að láta sig dreyma um að komast af stað í lífinu !

Saturday, September 24, 2011

Vinkonuhittingur

Það var sko nóg að gerast í dag !  Eftir ungbarnasund og skírn fórum við Stefán Sölvi heim og fengum svo Maríu, Magneu og Helgu Guðrúnu vinkonur í heimsókn og börnin þeirra, þau Bryndisi Huld, Eyrúnu og Bjarna Jóhann.  Stefán svaf nú af sér þessa heimsókn að mestu, en vaknaði að lokum og fékk þá ómælda athygli frá Eyrúnu 7 ára, sem var búin að bíða afar spennt eftir að hann vaknaði og strjúka honum oft um kinnina.  Við smelltum krílunum okkar auðvitað saman í sófann og tókum myndir af þeim :)  Eyrún fékk að halda á Stefáni og var hæstánægð með það :D  María og Bryndís Huld færðu Stefáni flottan regnhatt sem mun skýla honum fyrir veðri og vindum í framtíðinni :D  Þetta var afar ljúfur hittingur og við vinkonurnar erum að hugsa um að skipuleggja Akureyrarferð fyrir jólin til að heimsækja Maríu :)  Stefán Sölvi fær að sjálfsögðu að koma með.
 Eyrún stolt og ánægð með Krílríkinn í fanginu
 Bryndís Huld (3), Eyrún(7), Stefán Sölvi(0) og Bjarni Jóhann (3)
Sætu krúttin !

Skírn Alexanders bróður hans Kerans

Við Stefán Sölvi mættum beint úr ungbarnasundinu í skírn hjá litla bróður hans Kerans, hans Alexanders.  Alexander var í gullfallegum hekluðum skírnarkjól og var svo þægur að hann svaf í gegnum alla athöfnina :)  Hann fékk nafnið Alexander Stueland.  Keran stóri bróðir fylgdist með öllu og fékk að halda á skírnarkerti bróður síns en hans kerti fékk einnig að loga.  Stefán var frekar sprækur í veislunni en þurfti að vísu að skipta um alklæðnað út af smá bleiuslysi..  Hann fékk að liggja á leikteppi með Alexander og var ánægður svo lengi sem einhver var að hrista dót fyrir hann :)  Stefán heilsaði líka upp á Keran og fannst barkinn á öndunarvélinni hans afar spennandi.  Hann fékk líka að knúsa Keran aðeins :)  Keran var nú ekki alveg viss um hvað honum ætti að finnast um það :)  Þetta var frábær veisla og við skemmtum okkur vel bæði tvö, enda fékk Stefán fullt af athygli, nokkuð sem honum líkar vel.  Hér eru nokkrar myndir frá skírninni:
 Sigrún og Óli Ásgeir með Alexander skírnarbarn og Stefán Sölva
 Og hér hafði Ylfa frænka Kerans og Alexanders bæst í hópinn, hún er aðeins yngri en strákarnir
 Stefán heilsar upp á Keran
Og hér gefur hann Keran knús :)

Fleiri myndir úr ungbarnasundi

Kristín Anna kom með okkur í ungbarnasundið í dag.  Hún fór ekki ofan í laugina en sá um að klæða Stefán Sölva í og úr og tók myndir af okkur meðan hún fylgdist með tímanum.  Stefán prófaði nýja gerð köfunar, höfrungaköfun, hann var sáttur þegar Erla sundkennari lét hann gera það en frekar fúll þegar mamma var að prufa. Við gerðum líka æfinguna þar sem börnin eru látin standa í lófa foreldris og í þetta skipti tókst mér að fá hann til að standa í fæturnar tvisvar sinnum :)  Hér eru myndir frá tímanum :)
 Við mæðgin að hafa það gott í lauginni
 Stefán Sölvi stendur í lófa mömmu
 Og hér gerir hann það aftur
 Mamma að puðra á magann á litla kút
 Fær knús eftir köfun
 Ljúft að fljóta um í mömmu fangi
Aðeins verið að reyna að reisa sig við í slökunaræfingu

Friday, September 23, 2011

Grillveisla í Guðmundarlundi

Á föstudaginn fórum við Stefán Sölvi upp í Guðmundarlund fyrir ofan Kópavog en starfsmannafélagið í vinnunni hafði efnt til stuttrar haustferðar þangað sem enda átti með grillveislu.  Mikil afföll urðu úr hópi þeirra sem ætluðu að mæta svo við vorum bara fimm fullorðin og einn lítill ungi.  Við fórum fyrst í gönguferð um lundinn og upp á hæðina fyrir ofan hann.  Ólöf vinkona var svo góð að taka Stefán Sölva í burðarpoka framan á sér svo að mamma gamla gat skoppað um svæðið létt á tá.  Eftir göngutúrinn grilluðum við lambakjöt og kjúklingabringur og nutum þess að borða úti í frábæru veðri.  Stefán fékk mjólk að drekka og var sáttur við að sleppa kjötinu að þessu sinni :)  Svo var keyrt heim á leið og ungi maðurinn steinsofnaði í bílnum, þreyttur eftir útiveruna :)
 Stefán Sölvi liggur innpakkaður á borði í grillskýlinu
 Ólöf komin með herramanninn framan á sig :)
 Verið að skoða styttu af Guðmundi sem ræktaði upp lundinn
 Og hér er hópurinn kominn upp fyrir lundinn að njóta útsýnisins
Krílríkurinn minn beið í kerrunni meðan við borðuðum :)

Wednesday, September 21, 2011

Nóg að gera um helgina :)

Við Stefán Sölvi höfðum nóg að gera um síðustu helgi.  Á föstudaginn fórum við í afmæli til Eyrúnar, dóttur hennar Sifjar, en hún varð 5 ára þennan dag.  Það var mikið fjör í afmælinu en Stefán var ekki alveg í stuði og lagði sig því um stund :)  Á laugardaginn fórum við í ungbarnasundið með Magneu og var herrann ekki alveg upp á sitt besta þar, vildi eiginlega helst slappa af í fangi og fá að fljóta.  Hann kafaði samt tvisvar eins og herforingi :)  Á laugardagskvöldið fórum við í heimsókn til Sigrúnar og Víðis og höfðum það huggulegt þar.  Stefán Sölvi samþykkti ekki að liggja lengi á gólfinu en sættist á að horfa á sjónvarpið með okkur gegn því að fá að hnoðast nóg í fangi :)  Á sunnudaginn fórum við fyrst til Helenar systur en þar voru samankomin amma, Svanhildur, Guðlaug, Magga, Óli, Steinar og Arna Rún, auk húsráðenda að sjálfsögðu.  Stefáni fannst gaman að venju að fylgjast með stóru krökkunum og gott var að fá knús frá öllum frænkunum :)  Næst var svo afmæli hjá Dodda hennar Kristínar Önnu, en hann varð 4 ára þann 11. september.  Þar var mikið um dýrðir og fullt af fólki sem var til í að kjá framan í drenginn og halda á honum :)  Þegar gestirnir voru farnir fékk Stefán Sölvi gullfallega prjónaða peysu og skrímslabuxur að gjöf frá Kristínu.  Doddi fékk eins peysu og við klæddum þá í peysurnar og mynduðum þá saman.  Alveg eins og bræður sitjandi í sófanum í flottu peysunum sínum :)  Þetta var sem sagt afar góð helgi hjá okkur mæðginum.
 Stefán glaðhlakkalegur í nýju peysunni
 Fallegu drengirnir í fínu peysunum sínum
 Kíkja á hvern annan með aðdáun :)

Kristín knúsar strákana sína :)

Thursday, September 15, 2011

Dagur með Sif og Ægi :)

Sif vinkonu vantaði aðstoð meðan hún jafnar sig eftir aðgerð svo ég og Stefán Sölvi komum og eyddum deginum með henni og Ægi.  Ég sá um að lyfta Ægi þar sem hún má ekki bera neitt og reyna á sig.  Þeir félagar Ægir og Stefán voru afar hressir allan daginn.  Stefán horfði á Ægi leika sér með dótið og fór að sýna dóti mun meiri áhuga eftir það.  Var eins og að Ægir hefði fengið hann til að fatta um hvað málið snerist :)  Stefán fékk að prófa Bumbo stólinn hans Ægis og það var ekki létt að koma feitu lærunum hans í fótagötin :)  Stefáni fannst þetta hinsvegar frekar flott, ánægður með að geta loksins verið uppréttur.  Ægir hafði mikinn áhuga á Stefáni og vildi gjarnan fá að snerta hann, það fékk hann líka að gera undir eftirliti.  Verður gaman að sjá þessa pjakka leika sér saman í framtíðinni :)
 Félagarnir leika sér, auðvitað vill Stefán fá dótið sem Ægir er með :)
 Ægir leggur hendina kumpánalega á öxlina á Stefáni :)
 Spekingarnir spjalla
 Stefán fékk að prófa Bumbo stólinn, var mjög montinn
 Sif að fá tvíburafílinginn
 Ægir að vera aaa góður við Stefán
Bara aðeins að gæla við kollinn á honum :)

Saturday, September 10, 2011

Magnea með í ungbarnasund

Hún Magnea var svo góð að fara með okkur í ungbarnasund í dag.  Stefáni fannst gott að hvíla á öxlinni á henni og láta kroppinn fljóta í vatninu :)  Magnea fékk að gera æfingar með krúttikarlinum en þegar við reyndum að fá hann til að standa í lófanum á mér gekk það ekki, hann fékk bara brauðfætur :)  Erla sundkennari tók hann og lét hann sitja í lófanum á sér og hann skælbrosti þegar hún hélt honum hátt á loft :)  Hér eru myndir af prinsinum með Magneu í lauginni :)
 Gæinn kominn í laugina með Magneu sinni :)
 Gott á kúra á öxlinni á henni
Ó svo afslappandi :)

Wednesday, September 7, 2011

Vinkvennahittingur :)

Á miðvikudaginn fórum við Stefán Sölvi til Hrundar vinkonu minnar í Vesturbænum á vinkvennahitting :) Ég, Sif, Stína og Kata vinkonur mínar mættum keikar með börnin okkar og Hrund sem er barnlaus fékk allt sem fylgir barnastússinu beint í æð :)  Það var verið að gefa brjóst, skipta á bleium og elda lítinn fjörkálf út um allt :)  Þetta var alveg ofsalega gaman, við lögðum saman í púkkið og vorum með mat og eftirrétti og svo var spjallað og hlegið saman :)  Þetta verður bara fyrsti svona hittingur af mörgum spái ég :)  Hér eru myndir sem teknar voru við þetta tækifæri:
 Herra Stefán með skrítin svip
 Stefán Sölvi, Ægir og Vigdís Una :)
 Vigdís Una sæta mús, dóttir Stínu
 Ægir krúttkarl, sonur Sifjar
Vilhjálmur Jarl orkubolti :), sonur Kötu.  Iðunn systir hans mætti en náðist ekki á mynd :)

Sunday, September 4, 2011

Afmælisveislur :)

Stefán Sölvi fór í tvær afmælisveislur um helgina.  Sú fyrri var á laugardaginn hjá henni Hrafndísi Jónu sem verður tveggja ára þann 6. september.  Stefán var bara hress í veislunni, naut þess að fá athygli og sjá aðra krakka.  Hann varð samt frekar þreyttur á þessu og steinsofnaði í fangi Kristínar Óskar móðursystur afmælisbarnsins :).  Á sunnudaginn fórum við svo í afmæli Örnu Rúnar frænku sem verður 4 ára þann 5. september.  Ekki fékk Stefán minni athygli þar, mamma fékk hann varla í fangið allan tímann.  Frændur hans og frænkur af yngri kynslóðinni skemmtu honum vel en aðeins þurfti að stoppa afmælisbarnið í að leika sér að höfðinu á honum...  Semsagt, alger partíhelgi hjá Stefáni sem er orðinn vel sjóaður í veislum og mannfögnuðum :)
 Hrafndís Jóna afmælisprinsessa
Stefán að detta út í fanginu á Kristínu Ósk
 Stefán hjá Guðlaugu frænku í afmæli Örnu Rúnar
 Stefán, Guðlaug og afmælisprinsessan Arna
 Stefán og Úlfhildur frænka :)
Stefán að sofna í fangi Svanhildar frænku

Saturday, September 3, 2011

Grímubúningspartí !!

Stefán Sölvi brá undir sig betri fætinum og mætti í tvö grímubúningspartí með mömmu í kvöld :)  Partíin voru haldin til að hita upp fyrir grímuball sem mamma var að fara á seinna um kvöldið.  Stefán kom klæddur sem stúlka að nafni Stefanía og vakti mikla lukku :)  Hann var vakandi í báðum partíum, sofnaði aðeins á leiðinni heim og var svo ELDHRESS þegar mamma ætlaði á ballið.  Svo hress að hann fékk sitt fyrsta alvöru hláturskast í fanginu á Hildu systur.  Var yndislegt að sjá hann og heyra í honum, hann kastaði alveg höfðinu aftur og hló með galopinn munn :)  Mamma skrapp á ballið og eftir smá slagsmál sofnaði Stefán/Stefanía í ömmustólnum.  Mamma gat samt ekki verið lengi fjarri gullinu sínu og var komin heim eftir einn og hálfan tíma :)
 Stefanía litla komin í klærnar á vampíru :)
 Hún slapp til allrar lukku heil á húfi :)
 Magnea bleika barnapían fékk að passa Stefaníu
 Stefanía og ein svaka bleik
Grýla kom og ætlaði að troða Stefaníu í pokann sinn en hún slapp því hún er svo góð :)

Hilda systir kom með í ungbarnasund :)

Hilda systir skellti sér með okkur í ungbarnasundið í dag.  Stefáni Sölva fannst það ekkert verra að hafa okkur báðar til að stjana við sig :)  Hilda fékk að prófa að gera ýmsar æfingar en lagði ekki alveg í að láta hann kafa :)  Mamma lét unga manninn kafa í fyrsta sinn, gerðum það tvisvar og gekk bara vel.  Erla kennari fylgdist með í fyrsta sinn til að vera viss um að allt færi rétt fram.  Stefán hélt sig við mynstrið úr síðustu tveimur tímum, steinsofnaði eftir sundið, sæll og afslappaður :)
 Systkinin komin í laugina :D
 Flottur hjá Hildu sinni
 Sætu börnin mín :)
 Við Stefán Sölvi gerum æfingar

 Hér undirbý ég köfun
 Hér er hann í kafi !
Og svo kemur hann upp !