Saturday, June 30, 2012
Heill dagur í pössun hjá Hildu systur :)
Ég vann allan daginn frá 8 um morgun til hálf ellefu um kvöldið í forsetakosningunum. Litli karl var því í pössun hjá systur sinni allan daginn en hann hefur aldrei verið svona lengi fjarri mömmu sinni! Hann kom í heimsókn til mömmu sinnar í Laugardalshöll þegar systir hans kom til að kjósa og var ofsa kátur og glaður. Var ekkert svekktur þegar farið var með hann í burtu. Hann fór svo með Hildu niður á Austurvöll þar sem þau hittu Guðlaugu, Heiðar og litla Helga Steinar. Stefán æddi um allan völlinn og heilsaði upp á fólk og reyndi að sníkja sér mat og drykk :) Honum leist ekkert illa á rónana enda áttu þeir spennandi dósir ! Systur hans fannst það nú ekki alveg nógu spennandi. Hún þurfti að hlaupa á eftir honum í sífellu og einu sinni lét hann sig fallast á andlitið niður í blómabeð og sleit upp blóm í leiðinni! Þegar hann fékkst til að sitja kyrr í einhverja stund fór hann að rífa upp gras og gaf Helga Steinari að borða :) Þau skruppu líka á kaffihús þar sem Stefán fór á kostum, barði í glerið á kökuborðinu og æddi inn í eldhús að heilsa upp á liðið :) Þau enduðu svo á því að skreppa á leikvöll áður en haldið var heim á leið. Amma kom svo um kvöldmatarbil til að hjálpa til við að svæfa litla manninn enda engin brjóst á staðnum til að lúlla við. Amma þurfti aðeins að slást við prinsinn sem varð ansi svekktur þegar hann fattaði að hún væri að fara með hann inn í rúm og enn svekktari þegar hún slökkti ljósin. Hann gafst þó fljótt upp og sofnaði við söng ömmu sinnar. Þegar ég kom heim svaf hann sætt í rúminu sínu. Hann rumskaði svo rétt fyrir eitt og var ofsaglaður að finna þá mömmu og brjóstin á sínum stað :)
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment