Tuesday, June 5, 2012
Röra- og nefkirtlaaðgerð og minn fer formlega að labba :)
Í dag fór litli snúður í röra og nefkirtlaaðgerð. Hann átti að fasta í 6 tíma fyrir aðgerð þannig að þegar hann rumskaði kl. 5 um nóttina og vildi fá bobbann sinn þá var honum neitað. Elsku karlinn grét meira og minna í 1,5 tíma! Við vorum svo mætt kl. 10:45 á Læknastöðina Glæsibæ og grunlaus lítill Stefán Sölvi lék sér kátur á biðstofunni. Svo kom að því að kallað var á okkur og við fórum inn á skurðstofu. Stefán var látinn setjast á borðið og fékk svæfingargrímuna til að leika sér að meðan svæfingarlæknirinn talaði við mig. Síðan hélt ég honum með lækninum meðan hann var svæfður. Það var alveg hræðilega erfitt fyrir mömmuna að sjá litla greyið berjast um :( Til allrar lukku sofnaði hann fljótt og þá varð ég að fara fram á biðstofu og bíða. Það var kallað á mig eftir 20 mínútur og inni á vöknun lá lítill kútur vafinn í blátt teppi með súrefni við nefið. Hann fór svo að vakna eftir 5 mínútur og byrjaði strax að gráta og berjast um. Það lak blóð úr nefinu á honum en það hætti til allrar lukku fljótlega. Þegar hann var búinn að opna augun og farin að róast aðeins héldum við heim á leið. Þegar þangað var komið fékk litli maðurinn langþráðan bobba og sofnaði sæll á brjóstinu. Hann svaf svo bara 45 mínútur en vaknaði tiltölulega hress. Og móðurinni til mikillar undrunar fór hann að labba út um allt ! Labbaði frá sófanum fram í eldhús, hringinn í kringum borðið og var alveg ótrúlega duglegur að beygja og snúa við ! Það var eins og kveikt hefði verið á takka, allt í einu fattaði hann að þetta væri sniðugt að gera :) Hann lagði sig svo í 2,5 tíma í eftirmiðdaginn og vaknaði eiturhress. Helga og Magnea vinkonur mínar komu að spila um kvöldið og hann kom ítrekað og fékk að sitja hjá okkur og reyndi að ná í spilin :) Þegar Magnea kom með ostaköku varð hann himinglaður og fékk að prófa nokkra bita. Þegar ég ætlaði síðan með hann inn að svæfa hann varð hann alveg snar og flýtti sér í fang Magneu til að fá meira :) En það var engin undankoma og ég bar hann hágrátandi út úr stofunni en hann vildi alls ekki yfirgefa kökuna góðu :) Hann sofnaði sæll og vær eftir viðburðarríkan dag.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment