Lilypie Third Birthday tickers

Monday, December 5, 2011

Fyrstu veikindin :(

Þar kom að því.  Ef frá er talin hiti í kjölfar þriggja mánaða sprautunnar hefur Stefán Sölvi verið stálhraustur.  Það breyttist allt á föstudagseftirmiðdaginn.  Ég tók eftir því að litli kúturinn var einstaklega pirraður.  Þegar farið var að þreifa á honum kom í ljós að hann var orðinn heitur.  Ég mældi kútinn og þá var hann með 38.7 stiga hita.  Ekki skrítið þó karlgreyið væri slappur!  Hann var afar lítill í sér eftir því sem leið á kvöldið og að lokum gaf ég honum stíl.  Við það hresstist hann heilmikið og hló glaðlega þar til hann sofnaði.  Hann svaf órólega um nóttina og á laugardagsmorguninn var hann kominn með 39,8 stiga hita :(  Hann var afar slappur allan laugardaginn, hann fékk stíla reglulega en leið greinilega ekki vel þrátt fyrir þá.  Mér tókst þó að fá hann til að borða þrisvar sinnum en hann fékkst ekki til að taka brjóstið allan daginn.  Það eitt sýndi nú að ástandið var óvenjulegt !  Aðfaranótt sunnudagsins var hann sjóðandi heitur og leið afar illa.  Um morguninn þegar hann vaknaði var hann með 39,6 stiga hita.  Ég reyndi að hringja á barnalæknavaktina og læknavaktina, allt upppantað hjá barnalæknunum og stöðug bið í símann hjá læknavaktinni.  Ég gafst því upp og fór með hann á bráðavakt barna.  Þar var mældur hiti, súrefnismettun og hjartsláttur.  Hann var þá kominn niður í 38,5 með hjálp stíls.  Svo var límdur á hann poki til að taka þvagprufu og tekin blóðprufa úr tánni. Stefáni fannst þetta ekkert skemmtilegt og skældi af og til meðan hjúkkan var að bisa við þetta.  Svo kom læknir og hlustaði hann og skoðaði í eyrun.  Allt leit vel út fyrir utan smá vökva í eyra, blóðprufan reyndist í fínu lagi líka.  Við biðum svo eftir að fá þvagprufuna til að fá lokaniðurstöðu.  En herrann var ekkert að pissa :)  Við fengum lánaðan lítinn bíl og fórum í göngutúr um gangana.  Stefán sat eins og herramaður í bílnum og virtist skemmta sér þó lítið væri um bros.  Honum þótti líka gaman að stóra fiskabúrinu í andyrinu.  Loks kom piss í pokann og hjúkkan kom fljótt til baka með niðurstöður: hreint og fínt prinsapiss :):)  Læknirinn kvaddi okkur með því að þetta væri sennilega vírus sem hann losnaði við fljótlega.  Við fórum með það heim og sváfum svo í næstum fjóra tíma.  Hann svaf meira og minna það sem eftir var dagsins og var bara nokkuð hress um kvöldið, vaknaði aðfaranótt mánudagsins og tók smá aríu þegar hann átti að sofna aftur.  Í dag mánudag var hann bara nokkuð sprækur, hitalaus um morguninn en því miður með 38,5 um kvöldið.  Vonandi fer þessum veikindum að ljúka !  Hér eru myndir af kútnum í bílnum uppi á spítala :)
 Á keyrslu með Hildu systur
 Kíkir á mömmu
 Æ það sést hvað maður er slappur og lítill á þessari mynd !
Alvarlegi ökumaðurinn !

2 comments:

  1. Rosalega flottur á bílnum :-)
    Gott að þetta var ekkert alvarlegt.

    ReplyDelete
  2. æ maður verður alltaf áhyggjurfullur þegar þessi grey fá háan hita. En til allrar lukku gekk þetta nú fljótt yfir

    ReplyDelete