Thursday, May 19, 2011
Fæðing Krílríks :)
Við Kristín Anna sváfum báðar frekar lítið nóttina fyrir gangsetninguna. Kristín var mætt kl. 7:30 til að sækja mig og við brunuðum af stað upp á spítala. Við vorum helst til snemma á ferðinni og hringsóluðum aðeins um þar til klukkan var að verða átta. Þegar við komum að fæðingardeildinni vorum við beðnar um að bíða þar sem ekki var hægt að taka á móti okkur strax. Við sátum frammi á gangi og vorum fyndnar í 40 mínútur en þá var okkur loksins hleypt inn. Það var það mikið að gera að ekki hafði verið laus ljósmóðir handa okkur fyrr. Byrjað var á því að setja mig í monitor meðan við biðum eftir því að fæðingastofa nr. 3 yrði þrifin, en þar vildi ég fæða því að þar var bað. Draumurinn var að kanna hvort að baðið myndi ekki vera verkjastillandi þegar að fæðingunni kæmi. Ljósmóðirn sem var með okkur fysta spölin hét Guðrún og var hress og skemmtileg stelpa. Rétt upp úr 9 kom svo Ragnhildur fæðingarlæknir, sú sama og hafði hreyft við belgjum fyrir helgi. Hún setti upp prostaglandin stíl sem átti að koma fæðingunni í gang og sagði mig vera komna með 2 í útvíkkun. Svo hófst biðin. Ég var tengd við monitor og fljótlega sáum við að ekkert var að gerast. Við skruppum í göngutúr og reyndum þannig að koma hríðum af stað en það bar engan árangur. Í hádeginu fékk ég dásamlegan spítalamat, kjötfarsbollur sem voru reyndar skárri á bragðið en þær voru í útliti ! Kl. 2 var nákvæmlega ekkert búið að gerast svo athugað var hvort hagstætt væri að sprengja belgi. Kollurinn sat þá aðeins of hátt og því var settur var upp annar stíll. Þá fóru amk einhverjir samdrættir í gang en samt ekki neitt merkilegt. Við skruppum yfir í sjoppuna í Kringlunni en sá göngutúr var heldur ekki til að örva neitt. Um kl. 5 kom nýja ljósmóðirn á vaktinni inn og kynnti sig, hún hét Hermína Stefánsdóttir. Skoðun leiddi í ljós að útvíkkun var ennþá bara 2 og því var ákveðið að sprengja belgina. Hermína gerði það rúmlega 6 og þá fór loksins eitthvað að gerast. Og það gerðist hratt ! Verkirnir byrjuðu og fóru strax að ágerast. Eftir því sem sársaukinn jókst varð erfiðara að liggja kyrr og ég prófaði að setjast á jógabolta. Það hjálpaði ekki upp á verkina og fór mig þá að dreyma um baðið. Þegar baðið var tilbúið voru verkirnir orðnir rosalega slæmir og ég flýtti mér í baðið í von um hjálp. Mér til vonbrigða hjálpaði baðið ekkert til með verkina, sem enn ágerðust. Að lokum hélt ég ekki lengur út í baðinu og staulaðist aftur upp úr. Þá voru hríðarnar að koma án hléa og ég ég hékk á Kristínu veinandi í hverri hríð. Hermína lét mig svo leggjast upp á bekkinn og skoðaði mig og kom þá í ljós að útvíkkun var lokið. Ég fór þá upp í rúmið á 4 fætur, hélt um höfðagaflinn og fór að rembast. Sársaukinn var alveg skelfilegur og var erfitt að einbeita sér við rembinginn. Hermína lét mig svo fara upp í sitjandi stöðu og halda undir hnén og fór þá að ganga betur að ýta drengnum út. Í einni hríðinni sat kollurinn á drengnum fastur og þá hélt ég að mín hinsta stund væri runnin upp, svo mikill var sársaukinn. Ég fann ekki einu sinni hvenær næsta hríð byrjaði. Með einhverjum duldum kröftum tókst mér samt að rembast og loksins skaust Krílríkur í heiminn k. 20:41, blár og slappur og kom beint í mömmufang. Ég fór strax að nudda hann og hrista til að hressa hann en svo komu hjúkka og læknir og gáfu honum súrefni og nudduðu hann til að hressa hann við eftir átökin. Á meðan hann var hresstur við fæddi ég fylgjuna sem að sögn Hermínu var risastór. Svo fékk ég elsku Krílríkinn í hendurnar aftur og voru það fagnaðarfundir. Hann tók brjóstið rétt um hálf tíu og var vel vakandi og hress þegar mamma, Raggi og Hilda komu í heimsókn að kíkja á hann. Drengurinn var mældur og í ljós kom að hann var rétt tæpar 16 merkur, 3970 g og 52 cm. Við fórum svo niður á sængurkvennagang um ellefu leytið og þá komu Helen, Svanhildur og Sif og kíktu á okkur. Þegar þær fóru um miðnættið slöppuðum við 3 af, ég Kristín og Krílríkur enda búinn að vera viðburðarríkur dagur. Við Krílríkur eyddum nóttinni í bjóstagjafaræfingum og lítið var um svefn. Daginn eftir kom barnalæknirinn Steinn og skoðaði Krílrík sem fékk toppeinkunn :) Okkur var samt haldið á spítalanum fram að kvöldmat þar sem mamman var undir eftirliti vegna blóðþrýstingsins. Það var gestkvæmt þarna hjá okkur, Magga, Steinka, Svanhildur, Júlíana, Guðný, Magnea, Ólöf og Björg komu allar og kíktu á prinsinn og dáðust að honum. Hilda kom líka um morguninn og fékk að knúsa bróður sinn. Hún sótti okkur svo um kvöldið og rétt um kl. 19, þegar Krílríkur var að verða sólarhringsgamall, þá komum við heim. Nýtt líf byrjaði með dásamlegan Krílrík í lífi okkar !
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
memories.....
ReplyDeleteEn þú gleymir hinum æsispennandi eltingarleik sem við fórum í við evil bunny um morguninn hehehehe :)