Lilypie Third Birthday tickers

Tuesday, May 31, 2011

Heimahjúkkan kemur í fyrstu heimsókn

Í dag kom hjúkka frá Heilsugæslu Hlíðarsvæðis til að tékka á okkur Krílrík.  Hún byrjaði á að vikta hann upp á gamla mátann, með því að setja hann í taubleiu og hengja á vogarstöng.  Krílríkur var snöggur að nota tækifærið fyrst hann var allsber og pissaði í bleiuna :)  Hjúkkan og ég urðum ansi undrandi þegar niðurstaðan lá fyrir - drengurinn er orðinn 4850g !!! Búinn að þyngjast um tæp 800 gr frá því í fimm daga skoðuninni og um næstum 900g frá fæðingu !!  Vel af sér vikið litli hlunkur :)  Höfuðummálið var mælt og var komið í 37 cm, en það var 36,2 cm þegar hann fæddist.  Blóðþrýstingurinn var svo mældur hjá mér og reyndist vera orðinn alveg eðlilegur aftur :)  Hjúkkan kemur svo aftur á fimmtudaginn í næstu viku, verður spennandi að vita hvað Krílríkur verður þungur þá !!!

Friday, May 27, 2011

Fleiri Krílríksmyndir

 Sæti Krílríkur bíður eftir að komast að í 5 daga skoðun
 Slappað af í mömmu rúmi, bara frjálslegur
 Systkinin lúra saman í mömmu rúmi
 Krílríkur búinn í fyrsta baðinu
Sætur lítill innpakkaður í handklæði :)

Wednesday, May 25, 2011

Fyrsta baðið og fyrsta heimsóknin :)

Krílríkur fór í fyrsta skipti í heimsókn til einhvers núna í kvöld :)  Við fórum til ömmu í mat og fannst prinsinum bara fínt að breyta til og skoða nýjan stað. Frændur hans þeir Óli og Steinar voru til í að spjalla við hann og amma og Svanhildur frænka fengu að djöflast með hann líka :)  Þegar heim kom fór þessi elska svo í fyrsta baðið.  Hann var nú ekki alveg nógu hrifinn af því !  Það gekk ágætlega samt nema ekki var hægt að loka skiptiborðinu strax svo hann komst ekki alveg strax í handklæðið.  Það var því frekar reiður piltur sem var pakkað inn handklæði og þurrkaður :) Hann á örugglega eftir að skipta um skoðun varðandi baðið áður en langt um líður.

Tuesday, May 24, 2011

Sæti karl :)

 Steinar var alveg heillaður þegar hann hitti litla frænda sinn í fyrsta sinn
 Það er ekki alltaf gaman á skiptiborðinu
 Loksins fékkst litli dekurprinsinn til að sofa í vöggunni sinni
 Kúrt hjá Hildu systur
 Hilda er alltaf að taka hann og láta kúra hjá sér :)
 Sæti dekurprinsinn :)
Hér er minn maður í sólbaði til að reyna að minnka guluna :)

Monday, May 23, 2011

5 daga skoðun :)

Í morgun fórum við Hilda með Krílrík í fimm daga skoðun upp á barnaspítala.  Við fórum fyrst með hann inn í heyrnamælingu og ætluðu dömurnar þar að reyna að ná honum rólegum til að geta framkvæmt mælinguna.  Hann var hinsvegar ekki alveg sammála því að láta troða einhverju inn í eyrað á sér og kvartaði hástöfum.  Við enduðum því á að pakka honum inn í teppi og reyna að gabba hann með því að láta hann sjúga fingurinn á mér til að róa hann.  Á þennan hátt náðum við öðru eyranu, en hitt náðist alls ekki.  Okkur var því sagt að koma aftur eftir læknisskoðunina.  Steinn barnalæknir var að skoða og mundi eftir Krílrík síðan hann kíkti á hann á sængurkvennaganginum, mundi m.a. eftir marinu á hendinni á honum.  Hann skoðaði Krílrík hátt og lágt og það þótti þeim litla bara allt í lagi.  Horfði bara undrandi á þennan stóra mann.  Lýst var inn í augnbotna og skoðaðir allir liðir.  Mér til ánægju fékk hann toppeinkunn :)  Svo var drengnum skellt á vigtina - hann var þá búinn að ná fæðingarþyngdinni sinni og 105g betur, orðinn 4075g.  Við fórum að lokinni þessari góðu skoðun yfir til heyrnarmælingakvennanna aftur og í þessari umferð gekk allt betur.  Krílríkur var rólegur í fangi systur sinnar og var ekkert að stressa sig yfir bisinu í þeim lengur.  Heyrnin mældist eðlileg báðu megin :)  Við fórum því hress og kát heim eftir góða skoðun :)

Saturday, May 21, 2011

Elsku Krílríkur

 Krílríkur þegar verið var að setja fótafarið hans á spjaldi fyrir körfuna
 Kristín stolt með Krílrík, hún klæddi hann í fötin í fyrsta sinn
 Helen og Svanhildur dást að nýja frændanum
 Mamma og Krílríkur spjalla saman fyrstu nóttina
 Krílríkur að kúra í vöggunni sinni
Mamma og Krílríkur saman

Myndir frá fæðingunni

Hér eru hríðarnar byrjaðar að koma en ennþá hægt að brosa..
Hér er farið að verða dýpra niður á bros
Hér prófa ég jógaboltann, hægt að kreista fram bros yfir því
Hér er verið að hressa Krílrík við eftir fæðinguna, var ósköp blár og slappur
Hér er hann farinn að hressast og fá góðan lit
Og hér er hann kominn aftur í mömmufang
Hér er brjóstið prófað í fyrsta sinn :)
Drengurinn var 3970 g, enginn risi eins og spáð hafði verið.  Hann mældist svo 52 cm

Thursday, May 19, 2011

Fæðing Krílríks :)

Við Kristín Anna sváfum báðar frekar lítið nóttina fyrir gangsetninguna.  Kristín var mætt kl. 7:30 til að sækja mig og við brunuðum af stað upp á spítala.  Við vorum helst til snemma á ferðinni og hringsóluðum aðeins um þar til klukkan var að verða átta.  Þegar við komum að fæðingardeildinni vorum við beðnar um að bíða þar sem ekki var hægt að taka á móti okkur strax.  Við sátum frammi á gangi og vorum fyndnar í 40 mínútur en þá var okkur loksins hleypt inn.  Það var það mikið að gera að ekki hafði verið laus ljósmóðir handa okkur fyrr.  Byrjað var á því að setja mig í monitor meðan við biðum eftir því að fæðingastofa nr. 3 yrði þrifin, en þar vildi ég fæða því að þar var bað.  Draumurinn var að kanna hvort að baðið myndi ekki vera verkjastillandi þegar að fæðingunni kæmi.  Ljósmóðirn sem var með okkur fysta spölin hét Guðrún og var hress og skemmtileg stelpa.  Rétt upp úr 9 kom svo Ragnhildur fæðingarlæknir, sú sama og hafði hreyft við belgjum fyrir helgi.  Hún setti upp prostaglandin stíl sem átti að koma fæðingunni í gang og sagði mig vera komna með 2 í útvíkkun.  Svo hófst biðin.  Ég var tengd við monitor og fljótlega sáum við að ekkert var að gerast.  Við skruppum í göngutúr og reyndum þannig að koma hríðum af stað en það bar engan árangur.  Í hádeginu fékk ég dásamlegan spítalamat, kjötfarsbollur sem voru reyndar skárri á bragðið en þær voru í útliti !  Kl. 2 var nákvæmlega ekkert búið að gerast svo athugað var hvort hagstætt væri að sprengja belgi. Kollurinn sat þá aðeins of hátt og því var settur var upp annar stíll.  Þá fóru amk einhverjir samdrættir í gang en samt ekki neitt merkilegt.  Við skruppum yfir í sjoppuna í Kringlunni en sá göngutúr var heldur ekki til að örva neitt.  Um kl. 5 kom nýja ljósmóðirn á vaktinni inn og kynnti sig, hún hét Hermína Stefánsdóttir.  Skoðun leiddi í ljós að útvíkkun var ennþá bara 2 og því var ákveðið að sprengja belgina.  Hermína gerði það rúmlega 6 og þá fór loksins eitthvað að gerast.  Og það gerðist hratt !  Verkirnir byrjuðu og fóru strax að ágerast.  Eftir því sem sársaukinn jókst varð erfiðara að liggja kyrr og ég prófaði að setjast á jógabolta.  Það hjálpaði ekki upp á verkina og fór mig þá að dreyma um baðið.  Þegar baðið var tilbúið voru verkirnir orðnir rosalega slæmir og ég flýtti mér í baðið í von um hjálp.  Mér til vonbrigða hjálpaði baðið ekkert til með verkina, sem enn ágerðust.  Að lokum hélt ég ekki lengur út í baðinu og staulaðist aftur upp úr.  Þá voru hríðarnar að koma án hléa og ég ég hékk á Kristínu veinandi í hverri hríð.  Hermína lét mig svo leggjast upp á bekkinn og skoðaði mig og kom þá í ljós að útvíkkun var lokið.  Ég fór þá upp í rúmið á 4 fætur, hélt um höfðagaflinn og fór að rembast.  Sársaukinn var alveg skelfilegur og var erfitt að einbeita sér við rembinginn.  Hermína lét mig svo fara upp í sitjandi stöðu og halda undir hnén og fór þá að ganga betur að ýta drengnum út.  Í einni hríðinni sat kollurinn á drengnum fastur og þá hélt ég að mín hinsta stund væri runnin upp, svo mikill var sársaukinn.  Ég fann ekki einu sinni hvenær næsta hríð byrjaði.  Með einhverjum duldum kröftum tókst mér samt að rembast og loksins skaust Krílríkur í heiminn k. 20:41, blár og slappur og kom beint í mömmufang.  Ég fór strax að nudda hann og hrista til að hressa hann en svo komu hjúkka og læknir og gáfu honum súrefni og nudduðu hann til að hressa hann við eftir átökin.  Á meðan hann var hresstur við fæddi ég fylgjuna sem að sögn Hermínu var risastór.  Svo fékk ég elsku Krílríkinn í hendurnar aftur og voru það fagnaðarfundir.  Hann tók brjóstið rétt um hálf tíu og var vel vakandi og hress þegar mamma, Raggi og Hilda komu í heimsókn að kíkja á hann.  Drengurinn var mældur og í ljós kom að hann var rétt tæpar 16 merkur, 3970 g og 52 cm.  Við fórum svo niður á sængurkvennagang um ellefu leytið og þá komu Helen, Svanhildur og Sif og kíktu á okkur.  Þegar þær fóru um miðnættið slöppuðum við 3 af, ég Kristín og Krílríkur enda búinn að vera viðburðarríkur dagur.  Við Krílríkur eyddum nóttinni í bjóstagjafaræfingum og lítið var um svefn.  Daginn eftir kom barnalæknirinn Steinn og skoðaði Krílrík sem fékk toppeinkunn :)  Okkur var samt haldið á spítalanum fram að kvöldmat þar sem mamman var undir eftirliti vegna blóðþrýstingsins.  Það var gestkvæmt þarna hjá okkur, Magga, Steinka, Svanhildur, Júlíana, Guðný, Magnea, Ólöf og Björg komu allar og kíktu á prinsinn og dáðust að honum.  Hilda kom líka um morguninn og fékk að knúsa bróður sinn.  Hún sótti okkur svo um kvöldið og rétt um kl. 19, þegar Krílríkur var að verða sólarhringsgamall, þá komum við heim.  Nýtt líf byrjaði með dásamlegan Krílrík í lífi okkar !

Monday, May 16, 2011

Mæðraskoðun nr. 11 - 38 vikur og 5 dagar

Mætti hjá Ásu í morgun með mömmu með í för.  Svolítið skrítið að mæta í síðustu mæðraskoðunina!  Þegar tékkað var á þvagprufunni kom í ljós að komnir voru 2 plúsar í þvagið.  Þrýstingurinn var lægri en síðast og legbotninn kominn upp í 42,5 cm.  Ása ákvað að senda mig í prufur og dagönn upp á LSH, við föðmuðust svo og ég þakkaði henni kærlega fyrir umhyggjuna.  Ég fór fyrst í blóðprufuna og svo í mónitor hjá mæðraverndinni.  Blóðþrýstingurinn var hærri en hjá Ásu en ritið fínt og það kom gott út úr blóðprufunum.  Það var ákveðið að þar sem að ég væri formlega komin með meðgöngueitrun að ég ætti að mæta í gangsetningu beint uppi á fæðingadeild.

Friday, May 13, 2011

Mónitor á meðgöngudeild LSH

Jæja, mín kom upp á kvennadeild og skellti sér inn í dagönn - þar sem konur koma til að fara í mónitor. Ég var tengd við tækið og línuritið byrjaði að renna út. Ég merkti við í hvert sinn sem ég fann hreyfingu. Blóðþrýstingurinn var mældur og hafði nú enn hækkað ! Fyrsta mæling var 104/179 ! Hinar mælingarnar voru lægri en samt það háar að þegar var komið með blóðþrýstingslækkandi töflu fyrir mig og lyfseðill sendur fyrir slíkum töflum í apótek. Svo var kallaður til læknir til að kíkja á mig og reyndist þetta vera sami læknir og skoðaði mig hjá heilsugæslunni á þriðjudaginn. Hún ákvað að hreyfa við belgjum ef ég væri "hagstæð" eins og hún orðaði það. Ég fór því yfir á skoðunarherbergi og þar hreyfði hún svo sannarlega við mér, þetta var mjög vont ! Hún gaf mér svo tíma í gangsetningu á þriðjudagsmorguninn kl. 8. Krílríkur hefur því möguleika á að koma af sjálfu sér yfir helgina en á þriðjudag er ekkert elsku mamma lengur - hann verður rekinn í heiminn!

Thursday, May 12, 2011

Mæðraskoðun nr. 10 - 38 vikur og einn dagur

Mætti frekar mygluð til Ásu kl. 9 um morgun. Mér til skapraunar hafði blóðþrýstingurinn hækkað aftur og aftur var kominn plús vegna eggjahvítuefnis í þvagi. Hjartslátturinn hjá Krílríki var hinsvegar fjörugur, ekkert að plaga hann :) Ása hringdi upp á meðgöngudeild og pantaði fyrir mig tíma í mónitor á morgun. Ég fékk svo nýjan tíma í mæðraskoðun á mánudaginn. Verður spennandi að sjá hvað kemur út úr heimsókninni á LSH !

Monday, May 9, 2011

Fílafæturnir enn og aftur !

Bumbumynd - 37 vikur og 5 dagar

Vaxtarsónar, mæðraskoðun nr. 9 og skoðun hjá fæðingarlækni - 37 vikur og 5 dagar

Jæja, við Kristín Anna mættum hressar í vaxtarsónar í morgun kl. 9:30 og var strax kippt inn. Sama ljósa var við skannann og síðast. Ungur læknanemi fékk að fylgjast með og var ekki alveg held ég að fíla húmorinn okkar Kristínar (sem er annars á mjöög háu plani :)). Skoðunin kom mjög vel út, allt eðlilegt, fínt og flott. Drengurinn mældist vera orðinn 16 merkur !! 98% barna eru minni en hann á þessum tíma meðgöngu skv. stöðlunum. Úff úff úff ! Ljósan fékk svo að sýna læknanemanum typpið á litla manni því það sást svo greinilega og vel - alltaf verið að kíkja á djásnin á aumingja barninu ! Kl. 2 fór ég í skoðun hjá Ásu ljósu og mér til gleði var ekki eggjahvítuefni í þvaginu. Hinsvegar var blóðþrýstingurinn hærri en síðast, neðri mörk í 99 í fyrri mælingu. Legbotninn var mældur og er kominn í 42 cm !!! Hærra kemst hann ekki án þess að ryðja burt öllum innri líffærum held ég !! Ásu leist ekkert á fílafæturnar og sagði að ef ég ætti ekki fyrir settan dag yrði hreyft við belgjunum (úff langar ekki til þess). Ég verð aldrei látin ganga lengur með en 41 viku út af þrýstingnum. Ég fór svo yfir í skoðun til fæðingarlæknis sem skipaði mér í enn frekari hvíld, hún verður í sambandi við Ásu um framhaldið og verð ég í eftirliti 2x í viku. Ég á tíma hjá henni 23. maí og þá mun hún taka hressilega á mér eins og hún orðaði það og hreyfa belgina til að reyna að reka Krílrík út. Annars verð ég sett í gangsetningu innan viku. Vonandi lætur hann bara sjá sig sjálfur fyrir þennan tíma !

Thursday, May 5, 2011

Mæðraskoðun nr. 8 - 37 vikur og einn dagur

Jæja, ég skellti mér til Ásu aftur í dag. Okkur báðum til ánægju hafði blóðþrýstingurinn lækkað aðeins frá þriðjudeginum, reyndar var ég að koma beint úr hvíld en samt, vonandi bendir þetta til að blóðþrýstingurinn muni ekki hækka. Enn var einn plús af eggjahvítuefni í þvagi. Annað var bara ok, en Ása vill senda mig í annan vaxtarsónar og fer ég í hann á mánudaginn. Þá fer ég líka aftur í skoðun og í skoðun hjá fæðingarlækni. Ég á svo að hafa strax samband ef ég fer að fá höfuðverk eða flygsur fyrir augum. Verður spennó að sjá hvað áætlað verður að drengurinn sé orðinn stór !

Wednesday, May 4, 2011

Tuesday, May 3, 2011

Mæðraskoðun nr. 8 - 36 vikur og 6 dagar

Mætti í mæðraskoðun í morgun og byrjaði á viktinni - sá að ég hafði þyngst um 4 kg frá því að ég viktaði mig síðasta fimmtudag !!! Ástæðan er augljós, á föstudaginn fór að hlaðast bjúgur á fæturnar. Lærin og kálfarnir blésu út og ökklarnir hafa fjórfaldast. Nú kom líka plús fyrir eggjahvítuefni í þvagi í fyrsta sinn. Ása mældi blóðþrýstinginn 3x og hafði hann snögghækkað frá síðustu skoðun. Efri mörkin voru nú farin yfir 140 og neðri mörkin að sleikja hundrað. Legbotninn var kominn upp í 40,5 cm, sem skv. Ásu er mjög óalgengt að gerist. Ekki skrítið þótt þrýstingur sé á kerfinu ! Krílríkur var hress og hjartslátturinn hans góður, það var þó amk jákvætt. Ása ákvað að senda mig í monitor uppi á meðgöngudeild og hafði þegar samband við Grete lækni sem mun tala við mig á morgun. Hér væri greinilega um byrjandi meðgöngueitrun að ræða og ekki spurning að ég ætti að hætta að vinna nú þegar og hvíla mig. Ég fór upp á meðgöngudeild kl. 2 og lá hálfsofandi í þægilegum stól, þurfti bara að ýta á takka í hvert skipti sem Krílríkur hreyfði sig. Blóðþrýstingurinn var mældur 3x á meðan ég var í monitornum, hann var hærri en um morguninn. Eins var mælt eggjahvítuefni í þvagi og var það einn plús eins og um morguninn. Þær á meðgöngudeildinni ákváðu að ekki væri þörf að setja mig á lyf strax, skipuðu mér í hvíld og verða í samvinnu við Ásu um framhaldið. Fer í skoðun á fimmtudaginn aftur. Finnst ansi skrítið að vera að hætta að vinna !