Lilypie Third Birthday tickers

Wednesday, January 23, 2013

Læknisheimsóknir

Við Stefán eyddum deginum í læknisheimsóknir.  Fyrst mættum við hjá Ólafi Guðmundssyni HNE lækni sem skoðaði eyrun sem búið var að leka úr stanslaust dagana þar á undan.  Hann ákvað að best væri að fjarlægja rörin og bókaði herrann í aðgerð 12. febrúar.  Hann náði að sjarmera alla á biðstofunni áður en við komumst að, þar var fullt af eldra fólki og hann heilsaði, gaf þeim blöð og kubba og skemmti þeim með því að stinga mig af :)  Eftir hádegið fórum við svo í ofnæmispróf vegna gruns um að Stefán væri með pensilínofnæmi.  Hann hefur 2x fengið útbrot þegar hann var á pensilíni svo læknarnir á heilsugæslunni vildu að hann færi í þetta próf áður en hann fengi pensilín aftur.  Við mættum inn á Barnaspítala og þar tóku Tone hjúkrunarfræðingur og Gunnar læknir á móti okkur.  Stefáni var gefin pensilínsprauta og svo fórum við upp á leikstofu til að eyða tímanum en við áttum að mæta aftur eftir hálftíma.  Það var æðislega gaman á leikstofunni.  Þar var bíll sem mamma gat ýtt honum í eftir öllum ganginum, fullt af gervimat og eldhúsdóti til að sýsla við, fiskabúr með gullfiskum og froskum og allskyns annað dót til að leika með.  Við fórum svo niður eftir hálftíma og hann fékk annan skammt af pensilíni eftir skoðun.  Nú áttum við að bíða í klukkutíma og var tíminn fljótur að líða á leikstofunni.  Það sem hann skemmti sér !  Var eiginlega svekkjandi að þurfa að fara :) En til allrar lukku var niðurstaðan sú að hann er ekki með pensilínofnæmi.  Næsta sýking verður því örugglega drepin niður með pensilíni !

No comments:

Post a Comment