Lilypie Third Birthday tickers

Tuesday, January 1, 2013

Jól og áramót 2012

Jólin voru dásamleg þó að söknuðurinn eftir ömmu hafi gert vart við sig.  Við eyddum aðfangadagskvöldi hjá Möggu og Sigga og snæddum æðislegan hamborgarhrygg og vanilluís eins og mamma gerði í eftirrétt. Elsku litli karlinn var hinsvegar með 39 stiga hita og hafði ekki lyst á matnum, var hinsvegar til í að fá sér ís þrátt fyrir veikindin.  Þegar kom að pökkunum var hann alveg til í að skoða dótið en varð lang spenntastur yfir Legolest sem hann fékk frá Sigga :)  Hann fékk margar góðar gjafir, Lego, trékubba, uppblásna flugvél, bækur og margt fleira.  Við fórum svo heim sæl og ánægð og litli veiki prinsinn sofnaði vært.  Á jóladag fórum við í brunch til Steinku og Gumma.  Stefán borðaði vel þar og skemmti sér vel við að spjalla við Freyju.  Um kvöldið borðuðum við hjá Svanhildi og Ragnari.  Við komum með hangikjöt en þau buðu upp á kalkúnabringur.  Stefán var nú spenntastur fyrir því að leika sér við frændur sína en fékk sér samt smá hressingu.  Á annan í jólum var hið árlega jólaboð hjá Möggu þar sem öll fjölskyldan kom saman.  Þar var mikið um dýrðir, fullt af krökkum til að leika við og mikið af kökum og góðgæti til að borða.  Stefán var því afar ánægður með lífið.  Þegar allir fóru svo í miðaleik og fóru að hlæja hátt og mikið brotnaði litli maðurinn hinsvegar niður og vissi ekki alveg hvernig hann átti að bregðast við.  Kúrði skælandi hjá mömmu.  Þann 29. des var svo kalkúnaboð hjá Steinku og Gumma.  Þar var stærstur hluti fjölskyldunnar samankomin.  Stefán vildi ekki sjá kalkúninn og borðaði bara pínulítið af mat.  Þegar farið var að bera ís og aðrar kræsingar á eftirréttahlaðborðið varð hann hinsvegar kátur :)  Borðaði vel af namminamminamm :)  Svo kom að áramótunum.  Við eyddum þeim hjá Helen og Atla og Örnu litlu.  Við borðuðum hamborgarhrygg en líka dádýr :)  Stefán smakkaði aðeins af matnum en var að venju ekkert spenntur.  Hann sofnaði svo um 9 en vaknaði aftur á slaginu 22:30 um leið og áramótaskaupið byrjaði !!  Þegar því lauk fórum við út að horfa á flugeldana.  Honum fannst ljósin ansi flott en var ekki hrifinn af hávaðanum.  Hann var samt ekki hræddur.  Við vorum svo komin heim rúmlega hálf tvö en ungi maðurinn reyndi samt að halda sér vakandi í um kortér.  Hann sofnaði loks örþréyttur í fyrsta sinn á nýju ári sem vonandi verður gæfuár fyrir okkur öll :)

No comments:

Post a Comment