Sunday, January 27, 2013
Fyrsta skipti í leikhús - Skoppa og Skrítla í Borgarleikhúsinu
Í dag fór ungi maðurinn í leikhús í fyrsta sinn. Við fórum að sjá Skoppu og Skrítlu í Borgarleikhúsinu. Sesselja vinkona fór með okkur með fjölskylduna sína; Gumma manninn sinn og Bryndísi Evu og Steinar Mána. Stefán var spenntur fyrir öllu í andyri Borgarleikhússins og æddi um allt meðan við biðum eftir því að sýningin byrjaði. Skoppa og Skrítla birtust fyrir utan salinn tíu mínútum áður en opnað var og vöktu mikla lukku hjá börnunum. Stefáni fannst þær ekki alveg nógu traustvekjandi, labbaði af stað í áttina að Skrítlu en sneri svo snögglega aftur við í mömmufang :) Bryndís Eva var hinsvegar hvergi bangin og spjallaði lengi við Skrítlu :) Síðan var hleypt inn í salinn og fengum við bestu sæti alveg við sviðið. Stefán átti að sitja á púða á gólfinu en spratt á fætur og fór upp á sviðið. Var það aðeins fyrsta af fjöldamörgum tilraunum hans til að fara upp á sviðið sem flestar áttu sér stað á meðan á sýningu stóð ! Þegar sýningin byrjaði sat hann í smástund agndofa og horfði á. Síðan fór hann að standa reglulega upp og reyna að komast upp á sviðið. Seinnihluta leikritsins stóð hann mest upp við sviðið og starði hugfanginn á þær. Í einu atriðinu kom Skoppa með ljónahandbrúðu og lét hana urra, þá hljóp litla hérahjartað mitt til mömmu svona rétt til öryggis :) Þegar þær stöllur sungu eitt lagið dansaði hann og klappaði með, alveg hæstánægður :D Þegar sýningunni lauk stökk hann upp á sviðið og fór að skoða sviðsmyndina, glaður að fá loksins tækifæri til þess að skoða það sem honum langaði til :) Var ekki alveg sáttur við að vera tekinn niður. Hann fékk svo að prófa að sitja í fanginu á bæði Skoppu og Skrítlu og mamma tók mynd :) Hann var til í að setjast hjá þeim en var svo feiminn að hann fór alveg í hnút og er grafalvarlegur á myndunum. Þegar systkinin Bryndís og Steinar voru ljósmynduð með Skoppu var hún svo indæl að gefa Steinari einn geisladisk með leikritinu :) Þetta var hin besta skemmtun og vorum við Sesselja sammála um að þetta hefði verið sérlega vel heppnaður dagur fyrir krílin okkar :)
Saturday, January 26, 2013
Fyrsta skýra tveggja orða setningin :)
Stefán segir sífellt fleiri orð, en mest af því sem kemur út úr honum er þó á tungumáli sem ég ber ekki kennsl á :) Í dag sagði hann þó fyrstu skýru tveggja orða setninguna sem var: meira nammi ! Tek fram að hann var að biðja um skyr samt, nammi er líka matur ekki bara eitthvað góðgæti. Með nýjustu orðunum er billa fyrir bíl og haní fyrir hamstur (reyndar notað yfir kanínu líka :))
Wednesday, January 23, 2013
Læknisheimsóknir
Við Stefán eyddum deginum í læknisheimsóknir. Fyrst mættum við hjá Ólafi Guðmundssyni HNE lækni sem skoðaði eyrun sem búið var að leka úr stanslaust dagana þar á undan. Hann ákvað að best væri að fjarlægja rörin og bókaði herrann í aðgerð 12. febrúar. Hann náði að sjarmera alla á biðstofunni áður en við komumst að, þar var fullt af eldra fólki og hann heilsaði, gaf þeim blöð og kubba og skemmti þeim með því að stinga mig af :) Eftir hádegið fórum við svo í ofnæmispróf vegna gruns um að Stefán væri með pensilínofnæmi. Hann hefur 2x fengið útbrot þegar hann var á pensilíni svo læknarnir á heilsugæslunni vildu að hann færi í þetta próf áður en hann fengi pensilín aftur. Við mættum inn á Barnaspítala og þar tóku Tone hjúkrunarfræðingur og Gunnar læknir á móti okkur. Stefáni var gefin pensilínsprauta og svo fórum við upp á leikstofu til að eyða tímanum en við áttum að mæta aftur eftir hálftíma. Það var æðislega gaman á leikstofunni. Þar var bíll sem mamma gat ýtt honum í eftir öllum ganginum, fullt af gervimat og eldhúsdóti til að sýsla við, fiskabúr með gullfiskum og froskum og allskyns annað dót til að leika með. Við fórum svo niður eftir hálftíma og hann fékk annan skammt af pensilíni eftir skoðun. Nú áttum við að bíða í klukkutíma og var tíminn fljótur að líða á leikstofunni. Það sem hann skemmti sér ! Var eiginlega svekkjandi að þurfa að fara :) En til allrar lukku var niðurstaðan sú að hann er ekki með pensilínofnæmi. Næsta sýking verður því örugglega drepin niður með pensilíni !
Saturday, January 19, 2013
Litli íþróttaskólinn :)
Ég skráði Stefán Sölva í litla íþróttaskólann svo hann fengi tækifæri til þess að eyða einhverju af þessari endalausu orku sem hann hefur :) Við mættum galvösk rétt fyrir tíu um morgun upp í Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra á Háaleitisbraut. Þegar við mættum voru ekki margir komnir og Stefán brunaði inn í salinn og fór að leika sér með bolta og hlaupa um. Þegar fleiri fóru að mæta með börnin sín fór hann að verða pínu smeykur og sat loks í fanginu á mér. Síðan komu kennararnir og kölluðu á krakkana og létu þau fá litlar dýnur til að setjast á. Stefán tók við sinni dýnu og settist en var ekki alveg rólegur. Þegar kennararnir byrjuðu svo á að láta alla syngja "Stóra brúin fer upp og niður" brotnaði minn maður alveg niður og hágrét í fanginu á mér. Hann neitaði svo algerlega að taka þátt í neinu s.s. að hlaupa og skríða yfir salinn og syngja meira. Þegar komið var að því að fara yfir í hinn salinn þar sem er þrautabraut til að leika í og við áttum að leika að við værum lest fór hann allt í einu að brosa og allt var í lagi ! Hann skemmti sér konunglega í þrautabrautinni, skríkti og hló og var ekki í vandræðum með að gera þrautirnar. Það var svo gaman að þegar komið var að því að syngja kveðjulag ætlaði ég ekki að ná honum úr uppáhaldsstaðnum í þrautabrautinni. Hann fékkst þó til að koma og tók þátt í að gera hreyfingarnar í laginu. Um leið og því lauk fór hann strax í þrautabrautina aftur og ég varð að taka hann og bera hann fram :) Þrátt fyrir erfiðan fyrrihluta var samt afar gaman í íþróttaskólanum :)
Saturday, January 5, 2013
Fjölskylduveisla 5. janúar
Steinka systir tók sig til og bauð öllum Rebbunum til sín í fjölskylduboð. Allir komu með eitthvað á hlaðborð og svignuðu borðin af góðgæti. Það var stór og fríður hópur sem mætti á staðinn og nokkrir krakkar sem Stefáni fannst gaman að ærslast með :) Mest spennandi þótti krökkunum að fá að fara inn í stóra jeppann hans Gumma sem var inni í bílskúr. Stefán fékk að fara inn í hann og var svo hrifinn að hann ætlaði ekki að vilja fara út aftur. Fékk að fara 2x í bílinn en þegar Gummi ákvað að loka á fleiri bílaheimsóknir brotnaði hann alveg niður. Var fljótur að jafna sig við að æða um allt og leita að kisum :) Afar skemmtileg veisla og gaman að hitta alla ættingjana :)
Tuesday, January 1, 2013
Jól og áramót 2012
Jólin voru dásamleg þó að söknuðurinn eftir ömmu hafi gert vart við sig. Við eyddum aðfangadagskvöldi hjá Möggu og Sigga og snæddum æðislegan hamborgarhrygg og vanilluís eins og mamma gerði í eftirrétt. Elsku litli karlinn var hinsvegar með 39 stiga hita og hafði ekki lyst á matnum, var hinsvegar til í að fá sér ís þrátt fyrir veikindin. Þegar kom að pökkunum var hann alveg til í að skoða dótið en varð lang spenntastur yfir Legolest sem hann fékk frá Sigga :) Hann fékk margar góðar gjafir, Lego, trékubba, uppblásna flugvél, bækur og margt fleira. Við fórum svo heim sæl og ánægð og litli veiki prinsinn sofnaði vært. Á jóladag fórum við í brunch til Steinku og Gumma. Stefán borðaði vel þar og skemmti sér vel við að spjalla við Freyju. Um kvöldið borðuðum við hjá Svanhildi og Ragnari. Við komum með hangikjöt en þau buðu upp á kalkúnabringur. Stefán var nú spenntastur fyrir því að leika sér við frændur sína en fékk sér samt smá hressingu. Á annan í jólum var hið árlega jólaboð hjá Möggu þar sem öll fjölskyldan kom saman. Þar var mikið um dýrðir, fullt af krökkum til að leika við og mikið af kökum og góðgæti til að borða. Stefán var því afar ánægður með lífið. Þegar allir fóru svo í miðaleik og fóru að hlæja hátt og mikið brotnaði litli maðurinn hinsvegar niður og vissi ekki alveg hvernig hann átti að bregðast við. Kúrði skælandi hjá mömmu. Þann 29. des var svo kalkúnaboð hjá Steinku og Gumma. Þar var stærstur hluti fjölskyldunnar samankomin. Stefán vildi ekki sjá kalkúninn og borðaði bara pínulítið af mat. Þegar farið var að bera ís og aðrar kræsingar á eftirréttahlaðborðið varð hann hinsvegar kátur :) Borðaði vel af namminamminamm :) Svo kom að áramótunum. Við eyddum þeim hjá Helen og Atla og Örnu litlu. Við borðuðum hamborgarhrygg en líka dádýr :) Stefán smakkaði aðeins af matnum en var að venju ekkert spenntur. Hann sofnaði svo um 9 en vaknaði aftur á slaginu 22:30 um leið og áramótaskaupið byrjaði !! Þegar því lauk fórum við út að horfa á flugeldana. Honum fannst ljósin ansi flott en var ekki hrifinn af hávaðanum. Hann var samt ekki hræddur. Við vorum svo komin heim rúmlega hálf tvö en ungi maðurinn reyndi samt að halda sér vakandi í um kortér. Hann sofnaði loks örþréyttur í fyrsta sinn á nýju ári sem vonandi verður gæfuár fyrir okkur öll :)
Subscribe to:
Posts (Atom)