Lilypie Third Birthday tickers

Friday, December 24, 2010

Thursday, December 16, 2010

Læknisheimsókn

Fór í dag í blóðprufu til að gá hvort skjaldkirtilshormón séu í lagi og svo í hjartalínurit. Illa gekk að ná blóðprufunni þar sem æðarnar mínar fóru í feluleik og þurfti því að stinga báðu megin :( Það tókst þó að ná í dropana að lokum og þá var mér skellt í hjartalínurit. Í ljós kom að ég er með aukaslög en læknirinn virtist engar áhyggjur hafa af því og ætlar ekki að kanna málið frekar. Ég verð því bara að sætta mig við hjartsláttaróregluna, allt í lagi svo lengi sem ég dett ekki dauð niður :) Ása ljósa hringdi svo í mig rétt fyrir þrjú og var strax komin með niðurstöðuna úr skjaldkirtilsmælingunni ! Snöggir þarna á rannsóknastofunni, ég sá prufuna fara úr húsi hálf tólf og niðurstaðan komin fyrir þrjú ! Allt er í fínu með skjaldkirtilinn svo nú er bara að bíða eftir 20 vikna sónarnum, það er næsta skoðun :)

Monday, December 13, 2010

Vandræðalegar óléttumyndir :)

Hún Björg vinkona mín birti tengil inn á safn af vandræðalegum óléttumyndum á facebook síðunni sinni. Hægt er að finna tengilinn hér. Þetta eru alveg dásamlegar myndir og við spilaklúbbsstelpurnar ákváðum að gera okkar eigin útgáfu núna í kvöld. Hér er árangurinn :D

Mæðraskoðun nr. 2, 16 vikur

Í dag var mæðraskoðun nr. 2. Ég er núna komin 16 vikur og fimm daga miðað við áætlaðan fæðingardag skv. sónar. Ása ljósa fór yfir niðurstöður snemmsónarsins með mér og þær voru góðar. Skv. samþætta líkindamatinu eru líkurnar á Downs heilkenni 1 á móti 1139 - sem eru sömu líkur og fyrir 20-23 ára konur :) Það voru því góðar fréttir. Eins kom vel út úr öllum blóðprufum. Ég fékk svo að hlusta á hjartsláttinn í litla krílinu, það var mjög gaman. Erfitt að ná brosinu aftur af andlitinu :) Legið var af eðlilegri stærð miðað við meðgöngulengd og allt í sómanum. Blóðþrýstingurinn var nákvæmlega sá sami og síðast og er alveg skólabókardæmi um hvernig hann á að vera. Ég er hinsvegar búin að vera með smá hjartsláttaróreglu undanfarið svo ég fer í hjartalínurit á fimmtudaginn. Það verður vonandi allt í fínu með það. Ég fór ánægð út úr þessari skoðun, allt á góðri leið :)

Thursday, December 2, 2010

Wednesday, November 17, 2010

12 vikna sónar

Loksins rann upp dagurinn sem ég var búin að bíða eftir en samt líka kvíða pínu fyrir. Við Kristín Anna vorum mættar tímanlega fyrir kl. 10 á fósturgreiningardeild LSH og biðum spenntar á biðstofunni. Mér fannst líða heil eilífð þar til við vorum kallaðar inn en það voru víst bara fimm mínútur. Þegar litla krílið kom svo upp á skjáinn var ég ekkert smá fegin, gott að sjá að það var enn til staðar í fullu fjöri :D Greinilegt að krílið hefur lært eitthvað af mömmu því það sat í
lótusstellingu eins og það væri að hugleiða :) Það var þó ekki lengi kyrrt heldur spriklaði í sífellu, mömmu sinni til mikillar ánægju. Við fengum að heyra hjartsláttinn aðeins, það var mjög gaman. Ljósan sýndi okkur öll helstu líffæri, m.a. magann sem í var legvatn og þvagblöðruna :) Krílið var með hiksta á tímabili, mjög fyndið að sjá. Hnakkaþykktarmælingin kom vel út mér til mikils léttis, ég var svo send í blóðprufur til frekari greiningar. Ég fékk 3 myndir af krílrík, þær eru hér fyrir neðan :)





























Monday, November 8, 2010

Fyrsta mæðraskoðunin :)

Alltaf eitthvað að gerast í fyrsta sinn - í þetta sinn fyrsta mæðraskoðunin. Ljósmóðirin mín heitir Ása og hún var búin að vara mig við því að fyrsta skoðunin gæti tekið að minnsta kosti klukkutíma. Ég labbaði út eftir 2 tíma ! Við spjölluðum um alla heima og geima milli þess sem hún tók niður upplýsingar um heilsufar, fyrri fæðingu, ættarsögu og þess háttar. Hún gaf mér einnig góðar ráðleggingar varðandi vítamín, mataræði og hreyfingu. Hún er nágranni Svanhildar systur svo við gátum einnig talað svolítið um það :) Síðan hringdi hún út um allar trissur til að komast að því hvaða blóðprufur ég væri búin að fara í og fyllti út beiðni fyrir það sem vantaði. Ég benti henni á að hún hafði ekki merkt við próf fyrir hepatitis C. Hún horfði á mig og sagði: það er bara fyrir sprautufíkla. Ég hætti snögglega að skipta mér af :) Mér til mikillar gleði (NOOT) verð ég að fara í sykurþolspróf þar sem Helen systir er með sykursýki. Takk Helen, ég mun hugsa þér þegjandi þörfina þegar ég neyði í mig dísætan vökvann í sykurþolsprófinu! Mér líst mjög vel á Ásu og hlakka til næsta tíma í desember :)

Thursday, November 4, 2010

Fyrsta heimsókn hjá heilsugæslulækni

Ég pantaði mér tíma í fyrstu mæðraskoðun eftir 10 vikna sónarinn og þá sagði ljósan mér að ég ætti fyrst að fara í tíma hjá heilsugæslulækni. Þar sem ég er ekki með heimilislækni í heilsugæslustöð Hlíðarsvæðis þá valdi hún fyrir mig einn lækni, danska konu að nafni Grete. Ég mætt fersk á staðinn í dag og átti ágætt spjall við lækninn :) Líst bara vel á hana og verður gott að leita til hennar ef þörf er á.

Tuesday, November 2, 2010

Sónar nr. 4 :) 10 vikur 2 dagar

Í dag fór ég í síðustu skoðunina hjá Art Medica. Guðmundur læknir skoðaði mig og krílríkur blasti við á skjánum í fínu lagi, búinn að stækka heilmikið frá síðasta sónar. Maður sá litlu hendurnar og fæturnar betur :) Nú fer ég bara næst í mæðraskoðun og svo snemmsónar. Ég kvaddi Guðmund og þakkaði kærlega fyrir hjálpina :)

Friday, October 22, 2010

Sónar nr. 3! 8 vikur 6 dagar

Þar sem ég var með einhverja verki og var að deyja úr stressi tókst mér að kría út sónar hjá Art Medica til að gá hvort krílið væri í lagi. Tanja sýndi mér afar hresst kríli á skjánum sem var að hreyfa sig og hjartað barðist á fullu. Fékk að sjá kollinn þar sem sást móta fyrir andliti og litlu handa- og fótastubbana :) Frábærlega gaman :) Ég hætti því að hafa áhyggjur og fór glöð heim.

Tuesday, October 19, 2010

Sónar nr. 2 :) 8 vikur 3 dagar

Í dag fór ég í sónar nr. 2. Krílið hafði stækkað umtalsvert og nú sá maður smá mannsmynd á því. Tanja læknir mældi grjónið um 2,1 cm :) Hjartað barðist ótt og títt :)

Monday, October 4, 2010

Fyrsti sónar :) 6 vikur 2 dagar

Í dag var fyrsti sónarinn. Mikið stress í gangi. Kristín Anna kom með og var taugahrúgunni til halds og trausts. Fór í skoðun hjá Guðmundi lækni og viti menn, á skjánum sást eitt lítið fóstur með hjartslátt :) Mikil gleði með þetta :)

Monday, September 20, 2010

Þungunarprufa :)

Fór í blóðprufu í morgun, fékk niðurstöðurnar í dag rúmlega tvö. Prufan var "bullandi jákvæð" eins og hjúkkan orðaði það :) Krílríkur kominn af stað :)

Monday, September 6, 2010

Uppsetning

Settir voru upp tveir frystir fósturvísar í dag. Fósturvísarnir fengu góða einkunn og allar frumur voru heilar. Þórður læknir sá um uppsetninguna.

Friday, June 11, 2010

Eggheimta 24. maí 2010

13 egg náðust, 10 frjóvguðust og 7 voru góð :)