Lilypie Third Birthday tickers

Saturday, February 11, 2012

Fyrsta skipti í Þjóðminjasafnið og önnur ævintýri

Við Stefán Sölvi áttum ansi góðan dag í dag :)  Við byrjuðum á því að fara með Sif og fjölskyldu í Salarlaugina í Kópavogi.  Það var frí í ungbarnasundinu í dag svo tilvalið var að bæta sér það upp með sundferð :)  Ég hafði ekki komið fyrr í þessa laug, fínasta laug og góð aðstaða.  Stefán Sölvi var kátur og glaður í sundinu, buslaði heil ósköp og kafaði nokkrum sinnum :)  Honum fannst spennandi að sjá alla stóru krakkana líka, ekki vanur því að hafa neina aðra en rólega foreldra og lítil börn í sundinu.  Eftir sundið brunaði ég til mömmu og fékk mér kaffi en litli karl steinsvaf á meðan.  Næsti stopp var svo Þjóðminjasafnið en við fórum þangað í fylgd með Steinku systur, Evu dóttur hennar og Úlfhildi litlu barnabarninu hennar.  Þar fórum við á sýninguna Kjólar og korselett.  Stefáni fannst áhugavert að kíkja í kringum sig og sýndi mikinn áhuga á umhverfinu.  Við röltum líka aðeins um aðalsafnið og Stefán fékk sér aðeins að borða í andyrinu.  Næst fórum við yfir á Gló í Laugardalnum og þar fékk Stefán meira að snæða meðan ég gæddi mér á eplasalati sem ég renndi niður með kaffi (undarleg samsetning, ég veit það).  Síðan datt okkur í hug að fara í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn með litlu krílin.  Það sló alveg í gegn, þau voru spennt fyrir dýrunum og sýndu þeim mikinn áhuga.  Stefán hló og var alveg heillaður af selunum.  Fiskarnir í vísindatjaldinu voru algert æði, hann barði í glerið þegar þeir syntu framhjá og brosti út að eyrum.  Hann skoðaði líka kúlu með ljósi inni í sem hann byrjaði að tromma að utan af miklum móð :)  Honum leist líka afar vel á kýrnar og svinin, reyndi ítrekað að ná í hárin á enni nautsins en mamma var ekki alveg til í að leyfa honum það.  Sama var upp á teningnum þegar við sáum hestana, kindurnar og geiturnar en Stefán vildi ná í öll þessi dýr.  Hann náði að teygja sig fram og grípa þéttingsfast í ennistoppinn á einum hestinum  en til allrar lukku var sá upptekinn við að borða og kippti sér ekkert upp við þetta.  Við fórum svo og sóttum Hildu í vinnuna og fórum svo loksins heim aftur eftir langan dag !

Gaman að rífa í hestahár :)

No comments:

Post a Comment