Wednesday, February 29, 2012
Fyrsta vinkið og fyrstu skrefin :)
Í gær kom mamma í heimsókn, Stefáni til mikillar ánægju enda afar hrifinn af ömmu sinni. Þegar kom tími til að kveðja fylgdum við mömmu út að dyrum og ég sagði að venju við hann "vinkaðu nú til ömmu" og ætlaði svo að hreyfa hendina á honum eins og venjulega. En viti menn, minn bara vinkaði sjálfur, algerlega án aðstoðar :) Hann endurtók þetta svo í dag og kvaddi systur sína með flottu vinki þegar hún fór í skólann. Sama gerðist þegar við komum við niðri í vinnu, hann kvaddi félaga mína með vinki eins og hann hefði aldrei gert annað :) Annað merkilegt gerist í vinnunni í dag. Björg vinkona mín hjálpaði Stefáni að reisa sig upp af gólfinu og lét hann standa. Hún sleppti honum svo og þá stóð hann kyrr örstutta stund og tók svo tvö skref áfram beint í fangið á henni ! Hann hefur aldrei gert neitt þessu líkt fyrr, spurning hvort hann fari að gera meira af þessu á næstunni :)
Friday, February 24, 2012
Klósettið er of spennandi..
Stefán Sölvi er búinn að uppgötva klósettið... finnst það afar spennandi. Þarf greinilega að fara að halda því lokuðu á næstunni !
Á bruni í göngugrind
Stefán Sölvi grípur það með sér sem hann getur þegar hann er á ferð í göngugrindinni. Hér er hann búinn að stela sæng systur sinnar :)
Fjórða tönnin :)
Nýjasta tönnin er komin í ljós :) Hún er í efri gómi og par við þá sem fyrir var þar. Nú eru s.s. tvær tennur í efri og neðri gómi og gott að bíta saman og kvelja mömmu. Enda er hann farinn að beita þessum skörpu tönnum sínum alltof oft !
Veikindi nr. 2 og níu mánaða tölur
Jæja, þar kom að því, fyrsta kvefið mætti á svæðið. Aðfararnótt mánudagsins heyrði ég að það snörlaði mikið í honum meðan hann svaf og um morguninn fór hann að hósta. Um kvöldið var svo ljóst að hann var kominn með hita :( Endalausar snýtingar voru ekki beint að gleðja unga manninn og svefninn var erfiður enda óþægilegt að vera svona stíflaður. Á fimmtudaginn fór ég með hann í skoðun á heilsugæsluna og læknirinn hlustaði hann, skoðaði í eyrun og í hálsinn. Allt leit vel út og nú hefur hann verið hitalaus í 2 daga :) Smá hor í nös ennþá en annars er hann bara orðinn sprækur. Drengurinn varð 9 mánaða þann 17. febrúar og ég lét vigta hann og lengdarmæla af því tilefni um leið og hann var skoðaður í gær. Hann er orðinn 11,7 kg og 77,5 cm. Og já, minn maður er ennþá vel yfir meðaltalinu :) Hér er ein mynd af litla kvefpestargemlingnum svona til að skreyta þessa frétt :)
Fær knús frá systu í veikindunum
Fær knús frá systu í veikindunum
Saturday, February 11, 2012
Fyrsta skipti í Þjóðminjasafnið og önnur ævintýri
Við Stefán Sölvi áttum ansi góðan dag í dag :) Við byrjuðum á því að fara með Sif og fjölskyldu í Salarlaugina í Kópavogi. Það var frí í ungbarnasundinu í dag svo tilvalið var að bæta sér það upp með sundferð :) Ég hafði ekki komið fyrr í þessa laug, fínasta laug og góð aðstaða. Stefán Sölvi var kátur og glaður í sundinu, buslaði heil ósköp og kafaði nokkrum sinnum :) Honum fannst spennandi að sjá alla stóru krakkana líka, ekki vanur því að hafa neina aðra en rólega foreldra og lítil börn í sundinu. Eftir sundið brunaði ég til mömmu og fékk mér kaffi en litli karl steinsvaf á meðan. Næsti stopp var svo Þjóðminjasafnið en við fórum þangað í fylgd með Steinku systur, Evu dóttur hennar og Úlfhildi litlu barnabarninu hennar. Þar fórum við á sýninguna Kjólar og korselett. Stefáni fannst áhugavert að kíkja í kringum sig og sýndi mikinn áhuga á umhverfinu. Við röltum líka aðeins um aðalsafnið og Stefán fékk sér aðeins að borða í andyrinu. Næst fórum við yfir á Gló í Laugardalnum og þar fékk Stefán meira að snæða meðan ég gæddi mér á eplasalati sem ég renndi niður með kaffi (undarleg samsetning, ég veit það). Síðan datt okkur í hug að fara í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn með litlu krílin. Það sló alveg í gegn, þau voru spennt fyrir dýrunum og sýndu þeim mikinn áhuga. Stefán hló og var alveg heillaður af selunum. Fiskarnir í vísindatjaldinu voru algert æði, hann barði í glerið þegar þeir syntu framhjá og brosti út að eyrum. Hann skoðaði líka kúlu með ljósi inni í sem hann byrjaði að tromma að utan af miklum móð :) Honum leist líka afar vel á kýrnar og svinin, reyndi ítrekað að ná í hárin á enni nautsins en mamma var ekki alveg til í að leyfa honum það. Sama var upp á teningnum þegar við sáum hestana, kindurnar og geiturnar en Stefán vildi ná í öll þessi dýr. Hann náði að teygja sig fram og grípa þéttingsfast í ennistoppinn á einum hestinum en til allrar lukku var sá upptekinn við að borða og kippti sér ekkert upp við þetta. Við fórum svo og sóttum Hildu í vinnuna og fórum svo loksins heim aftur eftir langan dag !
Gaman að rífa í hestahár :)
Gaman að rífa í hestahár :)
Friday, February 10, 2012
Alvöru skrið !
Á mánudaginn heimsóttum við Sif vinkonu og fjölskyldu og afhentum Ægi litla afmælisgjöfina sína en hann varð 1 árs þann 31. janúar sl. Stefán var spenntur að skoða allt dótið hans og kíkja á allt þetta nýja sem fyrir augu bar. Allt í einu bendi Sif mér á að hann var farinn að skríða um á hnjánum. Hann hefur stundum farið aðeins upp á hnén en aldrei svona mikið. Loksins búinn að læra "ekta" skrið :) Næstu daga eftir þetta gerði hann þetta aftur og aftur en fer líka niður á magann og skríður með gömlu aðferðinni. Gaman að þessu :)
Sunday, February 5, 2012
Fjölskylduveisla hjá Steinku
Á hverju ári heldur stórfjölskyldan kalkúnaveislu þar sem Steinka systir eldar kalkún og allir koma með meðlæti og eftirrétt í púkkið. Stefán Sölvi mætti nú í fyrsta sinn og líkaði afar vel. Hann fékk að bragða kalkúninn og honum fannst það nú ekkert leiðinlegt. Svo fékk hann líka að prófa meira af ísnum hennar ömmu en kökur og súkkulaðiísar bíða framtíðarinnar. Við fórum í samkvæmisleik þar sem lesa átti upp spurningu af miða og sessunautur átti að lesa upp svar af öðrum miða. Þetta var oft ákaflega fyndið og því var hlegið hátt og innilega. Aumingja Stefáni fannst þetta helst til mikill hávaði og fór að hágráta. Hann jafnaði sig þó fljótt enda nóg af aðdáendum til að veita honum athygli :) Svo var spurningarkeppni þar sem fólkinu var skipt í 3 lið og ég var spyrillinn. Stefán tók virkan þátt í keppninni en náði ekki að svara neinu :) Þetta var frábær veisla að vanda en á næsta ári verður Stefán örugglega virkari í fjörinu !
Stefán var flottur í matrósafötum, ólmast hér hjá Atla frænda
Það er þéttsetið í stofunni þegar stórfjölskyldan kemur saman :)
Hér eru dömur úr fjórum kynslóðum sitjandi við borðið :)
Sæti Helgi Steinar frændi var auðvitað líka með í fjörinu
Stefán var flottur í matrósafötum, ólmast hér hjá Atla frænda
Það er þéttsetið í stofunni þegar stórfjölskyldan kemur saman :)
Hér eru dömur úr fjórum kynslóðum sitjandi við borðið :)
Sæti Helgi Steinar frændi var auðvitað líka með í fjörinu
Thursday, February 2, 2012
Heimsókn hjá Sesselju og Bryndísi Evu :)
Við Stefán Sölvi erum stöðugt í heimsóknum þessa dagana :) Við skelltum okkur í dag í heimsókn til hennar Sesselju og Bryndísar Evu dóttur hennar í Mosfellsbænum. Stefán Sölvi varð strax spenntur fyrir þessari ungu dömu og þurfti ég að vera fljót að bregðast við til að bjarga augunum hennar! Hann reyndi að faðma hana strax, greinilegt að þarna er mikill ladies man á ferðinni :) Við Sesselja spjölluðum og höfðum það huggulegt meðan krílin léku sér og tóku lúrinn sinn :) Svo þegar þau vöknuðu stilltum við þeim upp og tókum myndir af þeim í sófanum, voru svo yndisleg saman, eins og lítil hjón með barnið sitt þar sem Bryndís var með dúkkuna sína :) Hér eru myndir sem Sesselja tók af þeim:
Stefán sýnir litla barninu kærleik á sinn eigin sérstaka hátt :)
Svona á að faðma konurnar :)
Litlu sætu hjónin :)
Bara orðið allt of mikið fyrir gæjann, fer bara hjá sér :D
Stefán sýnir litla barninu kærleik á sinn eigin sérstaka hátt :)
Svona á að faðma konurnar :)
Litlu sætu hjónin :)
Bara orðið allt of mikið fyrir gæjann, fer bara hjá sér :D
Subscribe to:
Posts (Atom)