Krílríkur
Sunday, September 8, 2013
Fyndinn :)
Stefán var að raula upp í rúmi áðan: vara í Steinka bíla, íha, íha, ó :) Smá breyttur texti á Old Macdonald laginu :)
Sunday, August 11, 2013
Smá ferð um Reykjanesið
Við Stefán Sölvi skruppum í smá bíltúr um Suðurnesin með henni Gunnellu vinkonu :) Við byrjuðum á að fara í Flekkuvík á Vatnsleysuströnd. Stefán naut þess að hlaupa út í háa grasið við húsin og velta sér um og hamast :) Svo fórum við niður í fjöru og hann fékk útrás fyrir steinakastslöngun sína :) Hann dúndraði hverjum steininum á fætur öðrum út í fjörupoll og þurfti virkilega að draga hann til baka í bílinn. Næst stoppuðum við hjá Kálfatjarnarkirkju. Þar þurftum við aðeins að hafa hemil á litla manninum sem vildi gjarnan klifra upp á legsteina og svoleiðis. Það næsta sem gerðist var að litli púkinn hljóp út á golfvöllinn við hliðina á kirkjunni og mamman varð að hlaupa á brjálaðri ferð á eftir honum til að stoppa hann :) Næst keyrðum við sem leið lá út að Garðskagavita. Við kíktum á vitana, gamla báta og handverksgallerý sem þar er. Stefáni fannst gaman að leika sér í bátunum og var afar spenntur fyrir því að kíkja fram af göngubrúnni við vitann. Mamman hélt fast í drenginn þar ! Loks stoppuðum við við Hvalstrandarkirkju. Þar svipti Stefán sig úr sokkum og skóm og hljóp glaður um berfættur og frjálslegur :) Síðan var haldið heim á leið, sumir voru nú orðnir ansi þreyttir eftir allan hamaganginn. Góður dagur í góðum félagsskap :)
Saturday, July 27, 2013
Vestmannaeyjar 27. júlí 2013
Við Kristín Anna vinkona skruppum í dagsferð til Vestmannaeyja með litlu strákana okkar. Meiningin var að fara með bílinn yfir í bátnum en svo kom á daginn að ekki var pláss fyrir hann í bátnum á leiðinni til baka ! Við ákváðum því að fara bara yfir án hans. Spáin hafði sagt að þurrt yrði þennan dag.... þegar komið var til Eyja var úrhelli úti ! Við létum það ekki á okkur fá og röltum í úrhellinum út að Skansinum og skoðuðum gamla virkið, fallbyssuna og norsku stafkirkjuna sem reist var þarna fyrir nokkrum árum. Þegar þessu lauk vorum við orðin algerlega gegndrepa og fórum inn á lítinn skyndibitastað og fengum okkur hressingu. Þar náðum við hita í kroppinn og ég gat látið Stefán í þurr föt. Þegar við fórum út aftur hafði til allrar lukku stytt upp aftur. Við fórum þá og skoðuðum kirkjugarðinn og kirkjuna. Þegar við vorum á leiðinni niður að höfninni aftur missti Doddi sína fyrstu tönn og var það mikil gleði :) Stoltur ungur maður :) Við sigldum svo til baka kl. 17:30 og vorum komin í bæinn um kvöldmat. Skemmtileg ferð þó hún hefði mátt vera þurrari :)
Wednesday, July 24, 2013
Danmerkurferð 10. - 23. júlí
Sumarið var fullt af ævintýrum fyrir elsku Stefán Sölva :) Þann 10. júlí fórum við til Danmerkur með Svanhildi systur og fjölskyldu. Við fórum með næturflugi kl. 1 um nótt og vorum lent í Kaupmannahöfn kl. 6 um morguninn. Í flugstöðinni heima var Stefán eiturhress, hljóp um allt og var alls ekki til í að leggja sig. Þegar við vorum að bíða eftir því að komast í flugið steinsofnaði hann og ég bar hann sofandi inn í vélina. Hann svaf alla leiðina, vaknaði ekki þegar ég bar hann út og lagði í kerruna og vaknaði reynar ekki fyrr en um hádegi !! Við vorum það þreytt að við sváfum bara eftir að við komum í íbúðina okkar í Christianshavn og gerðu því lítið þann daginn. Um kvöldið fórum við á ítalskan veitingastað og í göngutúr um hverfið. Stefán lék á als oddi en af öryggistástæðum varð hann að vera í kerrunni :) Daginn eftir sóttum við bílaleigubílinn okkar og fórum í Bon Bon land skemmtigarðinn. Stefán var alveg til í að prófa tækin þar. Uppáhaldið var sigling í bátum sem fóru inn í göng og niður litla brekku og svo reiðtúrar á vélhestum sem skoppuðu með mann eftir hlykkjóttri braut. Frændum hans Óla og Steinari fannst þetta heldur ekki leiðinlegt :) Spaugilegt atvik átti sér stað á klósettinu... Fyrst setti ég Stefán á skiptiborð á klósettinu. Skemmst er frá því að segja að borðið þoldi ekki þyngdina og brotnaði ! Við flúðum þá inn á nærliggjandi klósett og ég girti niður um mig og ætlaði að tylla mér á setuna. Þegar ég var rétt að ná að setjast niður fann ég eitthvað hart skrapast við bossann á mér.. Stefán hafði þá á leifturhraða náð í klósettburstann og náð að troða honum að bossanum á mér :) Næsta dag keyrðum við svo alla leið í Legoland á Jótlandi. Við stoppuðum aðeins á Fjóni og fengum okkur Macdonalds, svo við getum nú sagst hafa verið þar :) Stefán var afar hrifinn af öllum legomódelunum, sérstaklega þótti honum gaman að sjá lestar, flugvélar og báta sem hreyfðust. Við fórum svo á Duploleikvöllinn og þar skemmti hann sér konunglega í rennibrautum, húsum og öðrum leiktækjum. Við fórum líka í hringekju, Duplolest og í flugvélahringekju. Eftir lúrinn hans fórum við svo í sjóræningjasiglingu. Bátarnir fóru í gegnum göng þar sem voru hinar og þessar sjóræningjafígúrur og svo á einum stað var eins og skotið væri úr fallbyssu og kúlan félli í vatnið. Þar varð litli maðurinn aðeins hræddur ! Við fórum svo heim á leið og vorum komin til baka seint um kvöldið. Á laugardeginum brugðum við okkur til Roskilde. Þar skoðuðum við dómkirkjuna og víkingaskipasafnið. Stefán fékk líka aðeins að sleppa laus á leikvelli í almenningsgarði :). Á sunnudeginum fórum við svo alla leið niður á Láland í vatnsleikjagarðinn Lalandia. Stefán var svolítið hræddur fyrst en vandist svo vatninu og fór að skemmta sér konunglega. Hann buslaði mikið í barnalauginni en fannst líka æðislegt að fara í stóru laugarnar og hoppa í fangið á mömmu þar. Við fórum í eina stóra rennibraut saman en litli maðurinn varð dálítið hræddur og þorði ekki aftur. Á mánudeginum var svo komið að ferð í Tívolí. Við fórum á barnaleikvöllinn þar og Stefán fékk heilmikla útrás fyrir sína miklu orku. Þarna var hallandi skip með rennibraut sem var í uppáhaldi og alls kyns tæki sem hann prófaði aftur og aftur :) Við fórum hinsvegar ekki í nein tívolítæki enda fokdýrt og fá tæki fyrir hans aldur. Þegar við vorum á leiðinni heim í strætó sló Stefán í gegn með því að byrja að syngja hátt: PINGUL PINGUL LITTUL SKAL ! Þegar allir fóru að hlæja varð hann of feiminn til að halda áfram :) Á þriðjudeginum 16. júlí fóru svo Svanhildur og fjölskylda heim. Þá fórum við yfir til Hildar vinkonu og fjölskyldu hennar. Við Hildur skelltum okkur í sund í Bagsværd með krílunum okkar. Sonja hennar Hildar var alveg örugg í vatninu en Stefán fór varlega í byrjun. Þegar við fórum heim var hann hinsvegar orðinn alveg öruggur og vildi alls ekki fara :) Miðvikudaginn 17. júlí skruppum við Hildur með krakkana í Plantorama búðina þar sem krílin skemmtu sér við að skoða dýr og fiska sem þar eru til sölu. Svo fórum við til Hilleröd. Við sprönguðum um bæinn, fengu okkur hressingu og Sonja skemmti sér á leikvelli, en þá var Stefán steinsofnaður. Á fimmtudeginum fórum við svo í Sommerland Sjælland skemmtigarðinn. Það þótti krílunum ekkert leiðinlegt :D Þar voru allskyns leiktæki fyrir lítil kríli, m.a. flugvélahringekju, lest, svanabáta og litla bíla. Stefán prófaði allt þetta en svo fann hann sinn uppáhaldsstað: boltalandið ! Þarna var kofi fullur af boltum og hann elskaði hverja sekúndu. Velti sér hlæjandi í boltunum, kastaði þeim og hreinlega synti í þeim :) Ekkert smá gaman :D Á föstudeginum var svo röðin komin að dýragarðinum :) Stefán Sölvi og Sonja fengu að snerta slöngu í fyrsta sinn. Stefáni fannst allt í lagi að taka í halann á henni en báðum börnunum fannst hausinn ógeðslegur. Stefán fékk líka að fara inn hjá geitunum og gaf einni þeirra gras og klappaði nokkrum :) Við skoðuðum okkur um í smá tíma en svo sofnaði Stefán. Hann vaknaði aftur hjá tígrisdýrunum og var kátur að kíkja á þauu. Svo fórum við í Tropé Zoo en þar fannst litla vera of mikill hiti og raki. Var samt spenntur fyrir fuglunum og fiðrildunum :). Á laugardeginum og sunnudeginum slöppuðum við aðeins af, skruppum í afmælisveislu á laugardagskvöldinu inni í kaupmannahöfn. Á mánudeginum fórum við í heimsókn til Jakobs sem á sumarhús rétt við ströndina. Við fórum á ströndina og Stefán svamlaði í sjónum, reitti upp þang og hljóp um glaður og kátur. Naut hverrar sekúndu. Svo var æðislega gaman að leika sér í garðinum við sumarhúsið, mikið stuð í boltaleikjum og fleira. Á þriðjudeginum 23. júlí var kominn tími á heimferð. Við skruppum aðeins í búð (Stefán stal búnti af sokkum í Hog M!) og fórum svo í sædýrasafnið Blå planet. Börnunum fannst gaman að sjá alla litríku fiskana :) Síðan var komið að kveðjustund, við flugum heim rétt fyrir kl. 20 og Stefán var bara rólegur og þægur allt flugið. Kvartaði reyndar yfir beltisólinni í lendingunni en það var það eina. Frábær ferð og mikið fjör allan tímann :)
Friday, June 21, 2013
Sundtúr í Elliðavatni !
Við Stefán skelltum okkur í göngutúr með Freyju og Steinku við Elliðavatn. Við gengum eftir göngustíg meðfram Helluvatni og nutum þess að horfa á óðinshana og himbrima synda á vatninu. Við stoppuðum við litla vík og Stefán fékk að kasta steinum í vatnið. Við löbbuðum svo aðeins lengra en þar sem erfitt var að halda Stefáni á stígnum ákváðum við að snúa við. Til þess að fá hann til að koma með okkur til baka lofuðum við því að hann fengi aftur að kasta steinum í víkinni. Hann gekk því með mér sæll og ánægður tilbaka að víkinni og hóf þegar að kasta steinum. Aðeins var liðin lítil stund þegar hann skyndilega tók viðbragð og hljóp út í vatnið ! Hann hljóp sífellt lengra, loks var vatnið komið upp að mitti. Þá datt ræfillinn og tók nokkur sundtök með höfuðið reigt upp úr vatninu. Hann var að sökkva þegar ég náði að grípa hann en fékk vatnið yfir hausinn. Hann rak strax upp vein og fór að hágráta. Við óðum í land og svo tók ég rennandi blauta drenginn minn í fangið og bar að bílnum. Við klæddum hann úr blautu fötunum og hann titraði og skalf, enn hágrátandi. Svo skellti ég honum inn í bíl og setti nýja bleyju og klæddi hann í flíspeysuna sína. Svo vöfðum við hann inn í peysur af Steinku og gáfum honum safa og Cheerios þar til hann jafnaði sig. Þessi lífsreynsla hafði greinilega áhrif á minn mann, hann sat aftur í bílnum og sagði bleyta bleyta nokkrum sinnum. Við borðuðum með Steinku og hann fór svo í heitt bað er heim kom. Þegar hann var kominn upp í rúm að lúra sagði hann : blautur, var kalt. Vonandi lærir hann á þessum mistökum og heldur sig á bakkanum hér eftir !
Thursday, June 20, 2013
Skemmtiferð að Kleifarvatni :)
Við Stefán fórum með Steinku og Freyju upp að Kleifarvatni. Við keyrðum yfir Stefánshöfða og fórum á ströndina þar og hleyptum hundinum og spræka drengnum út. Stefán tók auðvitað strikið beint niður að vatninu og Freyja með. Mér tókst að stöðva hann í að fara út í vatnið en .leyfði honum aðeins að stappa í vatnsyfirborðinu. Síðan fór hann að kasta möl í vatnið svo ég ákvað að sýna honum hvernig ætti að kasta steinum í vatnið. Það sló þvílíkt í gegn. Hann fór óteljandi ferðir og sótti steina til að henda í vatnið. Sumir þeirra voru risastórir og níðþungir en hann bisaðist með þá að vatninu og henti þeim út í ! Litli kraftakarl :) Síðan þegar kom að því að halda heim á leið vildi ungi maðurinn alls ekki hætta. Það endaði með því að ég varð að bera hann meirihlutan af leiðinni til baka að bílnum, öskrandi og gargandi. Svo kom Steinka og spurði hann hvort hann vildi ekki koma með í bílinn og kaupa ís í Hafnarfirði. Þetta reyndist vera töfraorðið og minn maður brunaði upp að bílnum og settist sæll inn. Við fórum svo í Hafnarfjörðinn og keyptum ís. Unginn litli var afar ánægður með þessi málalok :)
Saturday, June 15, 2013
Stefán Sölvi er orðinn tveggja ára !
Það er orðið alltof langt síðan ég skrifaði síðast. Stefán Sölvi er alltaf að vaxa og þroskast og talið tekur framförum á degi hverjum. Hann endurtekur allt sem maður segir og er farinn að nota fleiri setningar. Svo syngur hann fleiri lög en áður, t.d. Allur matur á að fara, upp í munn og ofan í maga :) Hann er líka hættur að kalla Svanhildi Svövu og Helen Hala eða Halla :) Hann er líka búinn að taka ástfóstri við orðið NEI og notar það óspart sem lið í sjálfstæðisbaráttu sinni. Elsku dugnaðarforkurinn varð svo tveggja ára 17. maí. Við Hilda sungum fyrir hann afmælissönginn um morguninn þegar hann vaknaði og hann varð pínu vandræðalegur :) Í leikskólanum fékk hann kórónu og svo var sungið fyrir unga manninn :) Þegar við komum heim opnaði hann svo pakkann frá mömmu sem innihélt múmínálfaspil, múmínálfa púsl, múmínálfabók og herramannabók. Þessu var öllu vel tekið. Helen frænka kom og knúsaði prinsinn og færði honum risastóra blöðru í tilefni dagsins :) Við fengum okkur svo gott í matinn og afmælisbarnið sofnaði sælt og ánægt. En til að fagna drengnum dugði ekkert minna en 3 veislur. Sú fyrsta var haldin laugardaginn 18. maí. Þar komu Júlíana og fjölskylda, Harpa með Silju sína, Ágústa, Gunna og Sigga Sóley, Gunnella og Elena :) Stefán fékk margar góðar gjafir s.s sandkassadót, bol og bók. Mánudaginn 20. maí var svo fjölskylduafmælið haldið heima hjá Möggu frænku. Þar voru fjöldi ættingja og svo kíkti Raggi pabbi Hildu við með hina bræður hennar og bróðir Arons hans Steinars kom líka :) Stefán fékk fullt af gjöfum s.s. bækur, Angry birds púða, Angry birds skó, Angry birds nærbuxur, Lego, buxur, bol, bíla og þyrlu :) Þarna var fullt af stórum strákum sem Stefán var afar hrifinn af en honum fannst þeir aðeins of frekir á Ipadinn hennar Möggu :) Síðasta veislan var svo haldin 25. maí. Þá mættu Guðný og Hrafndís, Kristín Anna og Doddi, Sesselja og fjölskylda, Kristín Lóa og Davíð, Sif og Ægir, Magnea og Eyrún og Ólöf. Ekki var nú minna fjör í þetta skiptið en afmælisbarnið var reyndar sofandi þegar gestirnir mættu svo hann var frekar úrillur þegar hann var vakinn. Þegar afmælissöngurinn var sunginn brast hann svo í grát ! Síðan fór hann að njóta þess að ólmast í kringum krakkana. Hann varð hinsvegar niðurbrotinn þegar stóru strákarnir Doddi og Davíð Kári fengu að fara út í garð. Hann brotnaði alveg niður, honum langaði svo með ! Hann og Bryndís Eva hennar Sesselju léku sér vel saman og skemmtu sér sérstaklega vel í Ikea göngunum sem voru tekin fram til að auka á fjörið :) Hann fékk fullt af fínum gjöfum, s.s. peysur, prjónaða vettlinga, sundföt, Lego, bækur og sápukúludót. Loks var svo afmælishátíðarhöldunum lokið. Hann fékk reyndar einn pakka á milli veisla. Það barst gjöf frá Sonju Sofie og foreldrum hennar í Danmörku, afar fínt Barbapabbapúsl :) Mikil gleði með það. Ég sló svo máli á tveggja ára prinsinn, skv. því er hann tæplega 94 cm og 17 kg ! Litla tröllið mitt :)
Subscribe to:
Posts (Atom)