Friday, June 21, 2013
Sundtúr í Elliðavatni !
Við Stefán skelltum okkur í göngutúr með Freyju og Steinku við Elliðavatn. Við gengum eftir göngustíg meðfram Helluvatni og nutum þess að horfa á óðinshana og himbrima synda á vatninu. Við stoppuðum við litla vík og Stefán fékk að kasta steinum í vatnið. Við löbbuðum svo aðeins lengra en þar sem erfitt var að halda Stefáni á stígnum ákváðum við að snúa við. Til þess að fá hann til að koma með okkur til baka lofuðum við því að hann fengi aftur að kasta steinum í víkinni. Hann gekk því með mér sæll og ánægður tilbaka að víkinni og hóf þegar að kasta steinum. Aðeins var liðin lítil stund þegar hann skyndilega tók viðbragð og hljóp út í vatnið ! Hann hljóp sífellt lengra, loks var vatnið komið upp að mitti. Þá datt ræfillinn og tók nokkur sundtök með höfuðið reigt upp úr vatninu. Hann var að sökkva þegar ég náði að grípa hann en fékk vatnið yfir hausinn. Hann rak strax upp vein og fór að hágráta. Við óðum í land og svo tók ég rennandi blauta drenginn minn í fangið og bar að bílnum. Við klæddum hann úr blautu fötunum og hann titraði og skalf, enn hágrátandi. Svo skellti ég honum inn í bíl og setti nýja bleyju og klæddi hann í flíspeysuna sína. Svo vöfðum við hann inn í peysur af Steinku og gáfum honum safa og Cheerios þar til hann jafnaði sig. Þessi lífsreynsla hafði greinilega áhrif á minn mann, hann sat aftur í bílnum og sagði bleyta bleyta nokkrum sinnum. Við borðuðum með Steinku og hann fór svo í heitt bað er heim kom. Þegar hann var kominn upp í rúm að lúra sagði hann : blautur, var kalt. Vonandi lærir hann á þessum mistökum og heldur sig á bakkanum hér eftir !
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment