Friday, June 21, 2013
Sundtúr í Elliðavatni !
Við Stefán skelltum okkur í göngutúr með Freyju og Steinku við Elliðavatn. Við gengum eftir göngustíg meðfram Helluvatni og nutum þess að horfa á óðinshana og himbrima synda á vatninu. Við stoppuðum við litla vík og Stefán fékk að kasta steinum í vatnið. Við löbbuðum svo aðeins lengra en þar sem erfitt var að halda Stefáni á stígnum ákváðum við að snúa við. Til þess að fá hann til að koma með okkur til baka lofuðum við því að hann fengi aftur að kasta steinum í víkinni. Hann gekk því með mér sæll og ánægður tilbaka að víkinni og hóf þegar að kasta steinum. Aðeins var liðin lítil stund þegar hann skyndilega tók viðbragð og hljóp út í vatnið ! Hann hljóp sífellt lengra, loks var vatnið komið upp að mitti. Þá datt ræfillinn og tók nokkur sundtök með höfuðið reigt upp úr vatninu. Hann var að sökkva þegar ég náði að grípa hann en fékk vatnið yfir hausinn. Hann rak strax upp vein og fór að hágráta. Við óðum í land og svo tók ég rennandi blauta drenginn minn í fangið og bar að bílnum. Við klæddum hann úr blautu fötunum og hann titraði og skalf, enn hágrátandi. Svo skellti ég honum inn í bíl og setti nýja bleyju og klæddi hann í flíspeysuna sína. Svo vöfðum við hann inn í peysur af Steinku og gáfum honum safa og Cheerios þar til hann jafnaði sig. Þessi lífsreynsla hafði greinilega áhrif á minn mann, hann sat aftur í bílnum og sagði bleyta bleyta nokkrum sinnum. Við borðuðum með Steinku og hann fór svo í heitt bað er heim kom. Þegar hann var kominn upp í rúm að lúra sagði hann : blautur, var kalt. Vonandi lærir hann á þessum mistökum og heldur sig á bakkanum hér eftir !
Thursday, June 20, 2013
Skemmtiferð að Kleifarvatni :)
Við Stefán fórum með Steinku og Freyju upp að Kleifarvatni. Við keyrðum yfir Stefánshöfða og fórum á ströndina þar og hleyptum hundinum og spræka drengnum út. Stefán tók auðvitað strikið beint niður að vatninu og Freyja með. Mér tókst að stöðva hann í að fara út í vatnið en .leyfði honum aðeins að stappa í vatnsyfirborðinu. Síðan fór hann að kasta möl í vatnið svo ég ákvað að sýna honum hvernig ætti að kasta steinum í vatnið. Það sló þvílíkt í gegn. Hann fór óteljandi ferðir og sótti steina til að henda í vatnið. Sumir þeirra voru risastórir og níðþungir en hann bisaðist með þá að vatninu og henti þeim út í ! Litli kraftakarl :) Síðan þegar kom að því að halda heim á leið vildi ungi maðurinn alls ekki hætta. Það endaði með því að ég varð að bera hann meirihlutan af leiðinni til baka að bílnum, öskrandi og gargandi. Svo kom Steinka og spurði hann hvort hann vildi ekki koma með í bílinn og kaupa ís í Hafnarfirði. Þetta reyndist vera töfraorðið og minn maður brunaði upp að bílnum og settist sæll inn. Við fórum svo í Hafnarfjörðinn og keyptum ís. Unginn litli var afar ánægður með þessi málalok :)
Saturday, June 15, 2013
Stefán Sölvi er orðinn tveggja ára !
Það er orðið alltof langt síðan ég skrifaði síðast. Stefán Sölvi er alltaf að vaxa og þroskast og talið tekur framförum á degi hverjum. Hann endurtekur allt sem maður segir og er farinn að nota fleiri setningar. Svo syngur hann fleiri lög en áður, t.d. Allur matur á að fara, upp í munn og ofan í maga :) Hann er líka hættur að kalla Svanhildi Svövu og Helen Hala eða Halla :) Hann er líka búinn að taka ástfóstri við orðið NEI og notar það óspart sem lið í sjálfstæðisbaráttu sinni. Elsku dugnaðarforkurinn varð svo tveggja ára 17. maí. Við Hilda sungum fyrir hann afmælissönginn um morguninn þegar hann vaknaði og hann varð pínu vandræðalegur :) Í leikskólanum fékk hann kórónu og svo var sungið fyrir unga manninn :) Þegar við komum heim opnaði hann svo pakkann frá mömmu sem innihélt múmínálfaspil, múmínálfa púsl, múmínálfabók og herramannabók. Þessu var öllu vel tekið. Helen frænka kom og knúsaði prinsinn og færði honum risastóra blöðru í tilefni dagsins :) Við fengum okkur svo gott í matinn og afmælisbarnið sofnaði sælt og ánægt. En til að fagna drengnum dugði ekkert minna en 3 veislur. Sú fyrsta var haldin laugardaginn 18. maí. Þar komu Júlíana og fjölskylda, Harpa með Silju sína, Ágústa, Gunna og Sigga Sóley, Gunnella og Elena :) Stefán fékk margar góðar gjafir s.s sandkassadót, bol og bók. Mánudaginn 20. maí var svo fjölskylduafmælið haldið heima hjá Möggu frænku. Þar voru fjöldi ættingja og svo kíkti Raggi pabbi Hildu við með hina bræður hennar og bróðir Arons hans Steinars kom líka :) Stefán fékk fullt af gjöfum s.s. bækur, Angry birds púða, Angry birds skó, Angry birds nærbuxur, Lego, buxur, bol, bíla og þyrlu :) Þarna var fullt af stórum strákum sem Stefán var afar hrifinn af en honum fannst þeir aðeins of frekir á Ipadinn hennar Möggu :) Síðasta veislan var svo haldin 25. maí. Þá mættu Guðný og Hrafndís, Kristín Anna og Doddi, Sesselja og fjölskylda, Kristín Lóa og Davíð, Sif og Ægir, Magnea og Eyrún og Ólöf. Ekki var nú minna fjör í þetta skiptið en afmælisbarnið var reyndar sofandi þegar gestirnir mættu svo hann var frekar úrillur þegar hann var vakinn. Þegar afmælissöngurinn var sunginn brast hann svo í grát ! Síðan fór hann að njóta þess að ólmast í kringum krakkana. Hann varð hinsvegar niðurbrotinn þegar stóru strákarnir Doddi og Davíð Kári fengu að fara út í garð. Hann brotnaði alveg niður, honum langaði svo með ! Hann og Bryndís Eva hennar Sesselju léku sér vel saman og skemmtu sér sérstaklega vel í Ikea göngunum sem voru tekin fram til að auka á fjörið :) Hann fékk fullt af fínum gjöfum, s.s. peysur, prjónaða vettlinga, sundföt, Lego, bækur og sápukúludót. Loks var svo afmælishátíðarhöldunum lokið. Hann fékk reyndar einn pakka á milli veisla. Það barst gjöf frá Sonju Sofie og foreldrum hennar í Danmörku, afar fínt Barbapabbapúsl :) Mikil gleði með það. Ég sló svo máli á tveggja ára prinsinn, skv. því er hann tæplega 94 cm og 17 kg ! Litla tröllið mitt :)
Subscribe to:
Posts (Atom)