Lilypie Third Birthday tickers

Saturday, April 23, 2011

Tuesday, April 19, 2011

Mæðraskoðun nr. 7, 34 vikur og 6 dagar

Fór í skoðun í morgun og var þá búin að bæta á mig 2 kg frá síðustu skoðun. Bjúgurinn er greinilega farinn að hreiðra um sig! Ása mældi hæð legbotnsins og er hann kominn upp í 39 cm og heldur sig því enn fyrir ofan seinna staðafrávik. Krílríkur var í stuði og tók smá tíma að finna hvíldarpúlsinn hans því hann var upptekinn við að brölta um á meðan hún var að mæla :) Hún athugaði hvort hann væri búinn að skorða sig og já, hann er búinn að skorða sig djúpt niður í grindinni. Ása spurði hvort ég yrði ekki vör við þrýsting á blöðruna - ÓJÁ, ég gat svarað þeirri spurningu játandi! Blóðþrýstingurinn hafði til allrar lukku ekki breyst frá síðustu skoðun. Ásu leist hinsvegar ekki á bjúginn í höndunum, sérstaklega vinstri hendi, og mælti með að ég fengi mér spelku til að styða við. Annars er hætta á að þurfa í aðgerð eftir meðgöngu! Næsta skoðun er svo 3. maí. Þá verður orðið stutt í Krílrík !

Thursday, April 14, 2011

Sykurþolspróf nr. 2

Jæja, ég skellti mér í sykurþolsprófið í morgun og það var eins og venjulega ekki gaman að drekka glúkósaógeðsdrykkinn. En ég lifði þetta af, líka frekar sársaukafullar stungur við blóðtökuna en lífeindafræðingunum gekki illa að finna æð og notuðu því eina á viðkvæmu svæði. Nóg var af slúðri til að lesa og Lazy boy stóll til að kúra í svo að verra gat þetta nú verið. Ása ljósa hringdi svo eftir hádegi og tilkynnti mér að sykurþolsprófið hefði komið út betur heldur en síðast ! Það er því orðið vel staðfest að meðgöngusykursýki er ekki til staðar. Krílríkur er bara stór af eigin frumkvæði :)

Tuesday, April 12, 2011

Vaxtarsónar 33 vikur og 6 dagar

Fór í vaxtarsónar í dag. Skv. mælingu er drengurinn orðinn 2880 g eða um 11,5 merkur. Það er í stærri kantinum en innan eðlilegra marka sagði ljósan í sónarnum. Legvatnið var eðlilegt sem bendir til þess að ekki sé meðgöngusykursýki til staðar. Ása ljósa hringdi í mig til að fá niðurstöðurnar en hún vildi samt að ég færi í annað sykurþolspróf (bleeh). Ég mæti því í það próf á fimmtudagsmorguninn. Krílríkur var bara sprækur í sónarnum, liggur með höfuðið niður og spriklaði smá, klóraði sér líka í framan :D Þetta verður greinilega myndarpiltur, bara vona að ég nái að ýta honum vandræðalaust út !

Friday, April 8, 2011

Læknisskoðun

Hitti Grete lækni sem mældi blóðþrýstinginn sem hafði enn hækkað frá þriðjudeginum. Ég hafði einnig bætt á mig 1,5 kg síðan á þriðjudag! Bjúgurinn í höndunum var í blóma og hún sagðist líka sjá greinilega bjúg í andlitinu. Hún ákvað að ég skyldi fara niður í 50% starfshlutfall frá og með mánudeginum og endaði á að skipa mér að fara vel með sjálfa mig! Ég hyggst hlýða því :)

Thursday, April 7, 2011

Tuesday, April 5, 2011

Mæðraskoðun nr. 6, 32 vikur og 6 dagar

Ása ljósa var veik 31. mars þegar ég átti að mæta í mæðraskoðun svo ég fékk tíma eftir helgina, 5. apríl. Ég mætti á staðinn og byrjaði á vigtun. Hafði þyngst um 2 kg. síðan ég viktaði mig á fimmtudaginn ! Blóðþrýstingurinn var mældur og hafði hækkað frá síðustu skoðun, neðri mörkin farin að sleikja 90 og efri mörkin farin yfir 130. Svo var mæld hæð legbotnsins ... og hún reyndist vera 37,5 ! Hafði s.s. lengstum 2 cm frá síðustu skoðun og er meira en 2 staðalfrávikum fyrir ofan meðaltalið, alveg eins og síðast. Ég sagði Ásu svo frá því að frá því í síðustu viku hef ég verið að fá bjúg í hendur og andlit. Henni leist ekki alveg nógu vel á mig svo hún vildi að Grete læknir myndi kíkja á mig á föstudag til að ákveða hvort ég ætti að draga úr vinnu. Hún bókaði einnig tíma fyrir mig í vaxtarsónar næsta þriðjudag, þann 12. apríl og annað sykurþolspróf þann 14. apríl. Það verður svo tekin ákvörðun um hvort ég fari í sykurþolsprófið eftir því hver niðurstaða vaxtarsónarsins verður. Nóg að gera framundan ! Meðan vappa ég um með bólgnar hendur og risabarn undir belti :)