Lilypie Third Birthday tickers

Saturday, July 27, 2013

Vestmannaeyjar 27. júlí 2013

Við Kristín Anna vinkona skruppum í dagsferð til Vestmannaeyja með litlu strákana okkar.  Meiningin var að fara með bílinn yfir í bátnum en svo kom á daginn að ekki var pláss fyrir hann í bátnum á leiðinni til baka !  Við ákváðum því að fara bara yfir án hans.  Spáin hafði sagt að þurrt yrði þennan dag.... þegar komið var til Eyja var úrhelli úti !  Við létum það ekki á okkur fá og röltum í úrhellinum út að Skansinum og skoðuðum gamla virkið, fallbyssuna og norsku stafkirkjuna sem reist var þarna fyrir nokkrum árum.  Þegar þessu lauk vorum við orðin algerlega gegndrepa og fórum inn á lítinn skyndibitastað og fengum okkur hressingu.  Þar náðum við hita í kroppinn og ég gat látið Stefán í þurr föt.  Þegar við fórum út aftur hafði til allrar lukku stytt upp aftur.  Við fórum þá og skoðuðum kirkjugarðinn og kirkjuna.  Þegar við vorum á leiðinni niður að höfninni aftur missti Doddi sína fyrstu tönn og var það mikil gleði :)  Stoltur ungur maður :)  Við sigldum svo til baka kl. 17:30 og vorum komin í bæinn um kvöldmat.  Skemmtileg ferð þó hún hefði mátt vera þurrari :)

Wednesday, July 24, 2013

Danmerkurferð 10. - 23. júlí

Sumarið var fullt af ævintýrum fyrir elsku Stefán Sölva :)  Þann 10. júlí fórum við til Danmerkur með Svanhildi systur og fjölskyldu.  Við fórum með næturflugi kl. 1 um nótt og vorum lent í Kaupmannahöfn kl. 6 um morguninn.  Í flugstöðinni heima var Stefán eiturhress, hljóp um allt og var alls ekki til í að leggja sig.  Þegar við vorum að bíða eftir því að komast í flugið steinsofnaði hann og ég bar hann sofandi inn í vélina.  Hann svaf alla leiðina, vaknaði ekki þegar ég bar hann út og lagði í kerruna og vaknaði reynar ekki fyrr en um hádegi !! Við vorum það þreytt að við sváfum bara eftir að við komum í íbúðina okkar í Christianshavn og gerðu því lítið þann daginn.  Um kvöldið fórum við á ítalskan veitingastað og í göngutúr um hverfið.  Stefán lék á als oddi en af öryggistástæðum varð hann að vera í kerrunni :)  Daginn eftir sóttum við bílaleigubílinn okkar og fórum í Bon Bon land skemmtigarðinn.  Stefán var alveg til í að prófa tækin þar.  Uppáhaldið var sigling í bátum sem fóru inn í göng og niður litla brekku og svo reiðtúrar á vélhestum sem skoppuðu með mann eftir hlykkjóttri braut.  Frændum hans Óla og Steinari fannst þetta heldur ekki leiðinlegt :)  Spaugilegt atvik átti sér stað á klósettinu... Fyrst setti ég Stefán á skiptiborð á klósettinu.  Skemmst er frá því að segja að borðið þoldi ekki þyngdina og brotnaði !  Við flúðum þá inn á nærliggjandi klósett og ég girti niður um mig og ætlaði að tylla mér á setuna.  Þegar ég var rétt að ná að setjast niður fann ég eitthvað hart skrapast við bossann á mér..  Stefán hafði þá á leifturhraða náð í klósettburstann og náð að troða honum að bossanum á mér :) Næsta dag keyrðum við svo alla leið í Legoland á Jótlandi.  Við stoppuðum aðeins á Fjóni og fengum okkur Macdonalds, svo við getum nú sagst hafa verið þar :)  Stefán var afar hrifinn af öllum legomódelunum, sérstaklega þótti honum gaman að sjá lestar, flugvélar og báta sem hreyfðust.  Við fórum svo á Duploleikvöllinn og þar skemmti hann sér konunglega í rennibrautum, húsum og öðrum leiktækjum.  Við fórum líka í hringekju, Duplolest og í flugvélahringekju.  Eftir lúrinn hans fórum við svo í sjóræningjasiglingu.  Bátarnir fóru í gegnum göng þar sem voru hinar og þessar sjóræningjafígúrur og svo á einum stað var eins og skotið væri úr fallbyssu og kúlan félli í vatnið.  Þar varð litli maðurinn aðeins hræddur !  Við fórum svo heim á leið og vorum komin til baka seint um kvöldið.  Á laugardeginum brugðum við okkur til Roskilde.  Þar skoðuðum við dómkirkjuna og víkingaskipasafnið.  Stefán fékk líka aðeins að sleppa laus á leikvelli í almenningsgarði :).  Á sunnudeginum fórum við svo alla leið niður á Láland í vatnsleikjagarðinn Lalandia.  Stefán var svolítið hræddur fyrst en vandist svo vatninu og fór að skemmta sér konunglega.  Hann buslaði mikið í barnalauginni en fannst líka æðislegt að fara í stóru laugarnar og hoppa í fangið á mömmu þar.  Við fórum í eina stóra rennibraut saman en litli maðurinn varð dálítið hræddur og þorði ekki aftur.  Á mánudeginum var svo komið að ferð í Tívolí.  Við fórum á barnaleikvöllinn þar og Stefán fékk heilmikla útrás fyrir sína miklu orku.  Þarna var hallandi skip með rennibraut sem var í uppáhaldi og alls kyns tæki sem hann prófaði aftur og aftur :)  Við fórum hinsvegar ekki í nein tívolítæki enda fokdýrt og fá tæki fyrir hans aldur.  Þegar við vorum á leiðinni heim í strætó sló Stefán í gegn með því að byrja að syngja hátt: PINGUL PINGUL LITTUL SKAL !  Þegar allir fóru að hlæja varð hann of feiminn til að halda áfram :)  Á þriðjudeginum 16. júlí fóru svo Svanhildur og fjölskylda heim.  Þá fórum við yfir til Hildar vinkonu og fjölskyldu hennar.  Við Hildur skelltum okkur í sund í Bagsværd með krílunum okkar.  Sonja hennar Hildar var alveg örugg í vatninu en Stefán fór varlega í byrjun. Þegar við fórum heim var hann hinsvegar orðinn alveg öruggur og vildi alls ekki fara :)  Miðvikudaginn 17. júlí skruppum við Hildur með krakkana í Plantorama búðina þar sem krílin skemmtu sér við að skoða dýr og fiska sem þar eru til sölu.  Svo fórum við til Hilleröd.  Við sprönguðum um bæinn, fengu okkur hressingu og Sonja skemmti sér á leikvelli, en þá var Stefán steinsofnaður. Á fimmtudeginum fórum við svo í Sommerland Sjælland skemmtigarðinn.  Það þótti krílunum ekkert leiðinlegt :D  Þar voru allskyns leiktæki fyrir lítil kríli, m.a. flugvélahringekju, lest, svanabáta og litla bíla.  Stefán prófaði allt þetta en svo fann hann sinn uppáhaldsstað: boltalandið !  Þarna var kofi fullur af boltum og hann elskaði hverja sekúndu.  Velti sér hlæjandi í boltunum, kastaði þeim og hreinlega synti í þeim :)  Ekkert smá gaman :D  Á föstudeginum var svo röðin komin að dýragarðinum :)  Stefán Sölvi og Sonja fengu að snerta slöngu í fyrsta sinn. Stefáni fannst allt í lagi að taka í halann á henni en báðum börnunum fannst hausinn ógeðslegur.  Stefán fékk líka að fara inn hjá geitunum og gaf einni þeirra gras og klappaði nokkrum :)  Við skoðuðum okkur um í smá tíma en svo sofnaði Stefán.  Hann vaknaði aftur hjá tígrisdýrunum og var kátur að kíkja á þauu.  Svo fórum við í Tropé Zoo en þar fannst litla vera of mikill hiti og raki.  Var samt spenntur fyrir fuglunum og fiðrildunum :).  Á laugardeginum og sunnudeginum slöppuðum við aðeins af, skruppum í afmælisveislu á laugardagskvöldinu inni í kaupmannahöfn.  Á mánudeginum fórum við í heimsókn til Jakobs sem á sumarhús rétt við ströndina.  Við fórum á ströndina og Stefán svamlaði í sjónum, reitti upp þang og hljóp um glaður og kátur.  Naut hverrar sekúndu.  Svo var æðislega gaman að leika sér í garðinum við sumarhúsið, mikið stuð í boltaleikjum og fleira.  Á þriðjudeginum 23. júlí var kominn tími á heimferð.  Við skruppum aðeins í búð (Stefán stal búnti af sokkum í Hog M!) og fórum svo í sædýrasafnið Blå planet.  Börnunum fannst gaman að sjá alla litríku fiskana :)  Síðan var komið að kveðjustund, við flugum heim rétt fyrir kl. 20 og Stefán var bara rólegur og þægur allt flugið. Kvartaði reyndar yfir beltisólinni í lendingunni en það var það eina.  Frábær ferð og mikið fjör allan tímann :)