Lilypie Third Birthday tickers

Sunday, April 28, 2013

Margt hefur gerst !

Jahérna, ansi langt síðan skrifað var hér síðast !  Fór úr mér allur vindur þegar Google vildi rukka mig fyrir að setja inn fleiri myndir af prinsinum.  Er ekki alveg búin að ákveða hver framtíð síðunnar verður eða hvort ég flyt mig annað. Annars hefur margt á daga drengsins drifið síðan síðast.  Hann byrjaði í leikskólanum Nóaborg þann 1.febrúar og hefur það gengið vel.  Talið hefur tekið miklum framförum og er hann sífellt að herma eftir okkur og bæta nýjum orðum við :)  Mest er talað í stökum orðum og tveggja orða setningum en stöku 3 orða setning læðist með.  Sú fyrsta sem hægt var með vissu að bera kennsl á kom á páskadag: allt búi súkkúlía, sagt í vonbrigðum yfir því að páskaeggið var búið :)  Hann er oft að syngja og fyrsta lagið sem ég gat algerlega borið kennsl á var Litalagið (gulur, rauður etc).  Hann söng guluuur, og svo appelsína talandi :D  Restin af textanum var frekar illskiljanlegur en lagið þekktist :)  Svo er hann oft að syngja Twinkle twinkle little star en hann elskar myndband með þvi lagi á youtube :)  Hans útgáfa hljóðar svona: Pingul pingul skal, háv æ vonder wat og svo kemur eitthvað óskiljanlegt :D  Nú er hann líka farinn að velja aðeins hvaða lög ég á að syngja á kvöldin, stoppar mig ef honum líkar ekki lagið :D  Uppáhaldslögin eru Kónguló, vísaðu mér á berjamó, Upp á grænum,grænum himinháum hól og Göngum upp í gilið.  Hann er búinn að vera hraustur síðan í janúar fyrir utan hor í nös og tvo daga sem hann var heima vegna hita sem hann fékk um kvöld en hvarf síðan að morgni.  Við höfum haft nóg að gera í að ólmast í Litla íþróttaskólanum, fórum á vornámskeið eftir að fyrsta námskeiðinu okkar lauk.  Herranum finnst þetta ekkert leiðinlegt og við kíkjum örugglega í haust líka :) Nýjasta nýtt er að hann fór í hálskirtlatöku núna 26. apríl og voru nefkirtlarnir teknir aftur í leiðinni.  Aðgerðin gekk vel en drengurinn er frekar aumur og lítill í sér.  Hann á að vera heima í viku og ætlum við mæðgin bara að hafa það huggó :D